Innlent

„Ríkis­stjórn Ís­lands stendur með sjálf­stæðri Palestínu“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Mohammad Mustafa, forsætisráðherra Palestínu og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Mohammad Mustafa, forsætisráðherra Palestínu og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands funduðu með forsætisráðherra Palestínu. Forsætisráðherra tók skýra afstöðu með Palestínu.

„Ríkisstjórn Íslands stendur með sjálfstæðri Palestínu og tveggja ríkja lausninni. Við Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra áttum góðan fund í dag með Mohammad Mustafa, forsætisráðherra Palestínu,“ skrifar Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á Facebook síðu sinni.

Kristrún og Þorgerður er nú staddar á öryggisráðstefnu í München í Þýskalandi. 

„Við komum á framfæri afstöðu Íslands um virðingu fyrir alþjóðalögum, stuðning við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu (UNRWA) og algjöra andstöðu okkar við hugmyndir um þvingaða brottflutninga,“ skrifar Kristrún.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur undanfarna viku viðrað hugmyndir sínar um að flytja ætti alla íbúa Gasastrandarinnar úr landi, þá helst til Egyptalands eða Jórdaníu. Í staðinn ætti að endurbyggja Gasa sem glæsibaðströnd í eigu forsetans. 

Ummælin hafa ekki farið vel í íbúa svæðisins sem segjast ekki ætla að flytja þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×