Erlent

Reiðu­búinn til að senda her­menn til Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starmer segir komið að ögurstundu.
Starmer segir komið að ögurstundu. AP/Kristy Wigglesworth

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segist reiðubúinn til að senda hermenn til Úkraínu sem friðargæsluliða ef samningar nást um endalok átaka. Boðað hefur verið til neyðarfundar í París í dag vegna framgöngu Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Starmer segir í aðsendri grein í Daily Telegraph að Bretland sé reiðubúið til að leika lykilhlutverk þegar kemur að vörnum og öryggi Úkraínu. Um sé að ræða „tilvistarlega“ spurningu fyrir Evrópu.

Þá segir hann það ekki léttvæga ákvörðun að senda hermenn til Úkraínu en að tryggja öryggi landsins sé þáttur í að tryggja öryggi Evrópu og þar með Bretlands. Endalok átaka megi ekki verða tímabundin pása, þar til Vladimir Pútín Rússlandsforseti ákveði að gera aðra árás.

Starmer mun funda með Emmanuel Macron Frakklandsforseta, Olaf Scholz, kansalara Þýskalands, og Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, í París í dag. Á fundinum verða einnig fulltrúar frá Danmörku og Ítalíu, auk Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og Ursulu von der Leyen, forseta framkævmdastjórnar Evrópusambandsins.

Þar munu þeir ræða stöðu mála en verulegar áhyggjur eru uppi um viðræður um Úkraínu milli Rússlands og Bandaríkjanna án aðkomu Úkraínumanna og Evrópuleiðtoga. Þær snúa ekki síst að því að Trump muni láta eftir þegar kemur að kröfum Rússa um yfirráð yfir hernumdum svæðum og fleira.

Utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna, Sergei Lavrov og Marco Rubio, munu funda síðar í vikunni.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur sagt að hann sé mjög efins um að Pútín sé reiðubúinn til að slá af kröfum sínum. Þá segist hann enn sannfærður um að hann sé að leggja drög að árásum á aðildarríki Atlantshafsbandalagsins á næsta ári.

Trump sagðist í gær gera ráð fyrir að eiga fund með Pútín á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×