Innlent

Sjö­tíu milljóna starfs­loka­samningur sex mánuðum eftir endur­kjör

Samúel Karl Ólason skrifar
Þórarinn Eyfjörð, fyrrverandi formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð, fyrrverandi formaður Sameykis. Vísir/Ívar Fannar

Stjórn Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu gerði á síðasta ári starfslokasamning við fyrrverandi formann stéttarfélagsins um að hann verði áfram á launum næstu tvö og hálft ár, rúmum sex mánuðum eftir endurkjör í embætti formanns. Heildarupphæðin vegna samningsins er tæpar sjötíu milljónir sem Sameyki mun greiða.

Málið verður rætt á aðalfundi Sameykis sem haldinn verður á morgun en í ársreikningi félagssjóðs stéttarfélagsins kemur fram að heildarskuld félagsins vegna starfslokasamningsins sé 68,7 milljónir króna.

Þar komi meðal annars til launatengd gjöld sem samsvari um fjórtán milljónum króna, réttindi vegna biðlauna, sem séu sex mánuðir samkvæmt reglum launanefndar Sameykis, upp á um fimmtán milljónir og áfallið orlof sem nemi um 7,5 milljónum króna.

Úr ársreikningi Sameykis.

Í ársreikningnum segir að Þórarinn Eyfjörð, umræddur fyrrverandi formaður, hafi verið kjörinn til þriggja ára á aðalfundi 2024 og að tvö og hálft ár hafi verið eftir af kjörtímabili hans þegar hann lét af störfum með samkomulagi við stjórn félagsins.

Þórarinn var fyrst kjörinn formaður í mars 2021 og var sjálfkjörinn í embættið þremur árum síðar. Hann vék svo úr starfi sínu í október í fyrra en var það í kjölfar ásakana um að hann hefði gengið of hart fram gagnvart starfsfólki Sameykis. Einnig hafði verið uppi ágreiningur milli hans og stjórnar félagsins um áherslur og stefnu.

Starfsmenn sálfræðistofu voru fengnir til að gera úttekt á vinnustaðarmenningunni hjá Sameyki og var gerð skýrsla fyrir stjórnina. Þórarinn játaði í kjölfarið að hafa gengið of hart fram en þegar starfslok hans voru tilkynnt kom fram að stjórn Sameykis hefði gert samkomulag við hann um starfslokin.

Starfslokasamningurinn gildir út kjörtímabil Þórarins og fær hann mánaðarlegar greiðslur á tímabilinu.

Kári Sigurðsson, núverandi formaður Sameykis, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu. Hann sagðist fyrst vilja ræða það við félagsmenn, áður en hann talaði um það í fjölmiðlum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Verður á launum hjá stéttarfélagi og Alþingi út júní

Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar, verður með ráðningarsamband við Rafiðnaðarsamband Íslands út júní þrátt fyrir að hann hafi sagt af sér fyrr í þessum mánuði. Hann er sagður eiga að hjálpa nýjum formanni að komast inn í embættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×