Innlent

Nem­endurnir neita að fara í Tækni­skólann

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands héldu neyðarfund á dögunum vegna stöðu mála.
Nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands héldu neyðarfund á dögunum vegna stöðu mála. Aðsend

Nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands hafa afþakkað boð um að halda námi sínu áfram í Tækniskólanum og segja tillögurnar um áframhaldandi nám óljósar og illa ígrundaðar.

Fulltrúanefnd nemenda í skólanum fundaði í dag með stjórnendum Tækniskólans. Stjórnendurnir kynntu sínar hugmyndir um hvernig náminu yrði háttað í Tækniskólanum.

„Þær tillögur voru óljósar, illa ígrundaðar og uppfylltu ekki eðlilegar kröfur nemenda til þess náms sem þeir hafa vanist og greitt fyrir,“ stendur í yfirlýsingunni.

Mennta- og barnamálaráðuneytið lagði tillögu um að nemendur í Kvikmyndaskólanum, sem er gjaldþrota, fengju að ljúka námi sínu við Tækniskólann. Samhliða því yrði búin til sérstök námsbraut í kvikmyndagerð. Nemendurnir voru mjög ósáttir við áformin og vildu heldur halda skólanum áfram í þeirri mynd sem hann er núna.

„Því sjáum við okkur ekki annað fært en að hafna þessum umleitunum. Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands þakka þó fulltrúum hins frábæra Tækniskóla fyrir þeirra viðleitni,“ stendur í yfirlýsingunni.

Nemendurnir kalla þá aftur eftir samtali með Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra, um framtíð námsins, líkt og þau gerðu í opna bréfinu sínu til ráðherrans.

„Við köllum eftir eðlilegum viðræðum á jafningjagrundvelli til að finna viðunandi lausn í okkar málaflokki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×