Innlent

Flug­leiðir á barmi gjald­þrots gátu ekki haldið Cargolux

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grétar Br. Kristjánsson sat í stjórn Flugleiða í 32 ár, þar af sem varaformaður stjórnar í 18 ár.
Grétar Br. Kristjánsson sat í stjórn Flugleiða í 32 ár, þar af sem varaformaður stjórnar í 18 ár. Egill Aðalsteinsson

Flugleiðir voru á barmi gjaldþrots og höfðu engin tök á að halda þriðjungshlut sínum í Cargolux fyrir fjörutíu árum. Þetta er meginástæða þess að Íslendingar misstu tökin á frakflugfélaginu í Lúxemborg, að mati eins helsta valdamannns Flugleiða á þeim tíma.

Í fréttum Stöðvar 2 var rifjuð upp sú söguskýring, einkum gamalla Loftleiðamanna, að andstaða Sigurðar Helgasonar eldri, þáverandi forstjóra Flugleiða, við Cargolux hafa ráðið úrslitum um það að Flugleiðir létu frá sér hlut sinn í félagi, sem í dag er stærsta fraktflugfélag Evrópu.

Sigurður Helgason var for­stjóra Flug­leiða frá 1974 til 1984 og síðan stjórn­ar­formaður Flugleiða til árs­ins 1991.Úr myndinni Alfreð Elíasson og Loftleiðir

Grétar Br. Kristjánsson, sem sjálfur kom úr Loftleiðahópnum, sat á þeim tíma í stjórn Flugleiða og var varaformaður stjórnar. Hann segir Sigurð Helgason hafa verið á móti Cargolux en sú andstaða hans skýri ekki missi hlutarins í flugfélaginu, eins og heyra má hér:

„Það sem gerðist var það að Cargolux hafði keypt 747-vélar, tóku lán í Bandaríkjunum, segir Grétar.

Lánin hafi verið á breytilegum vöxtum.

Þá gerðist það að vextir í Bandaríkjunum fóru yfir tuttugu prósent. Það hefur ekki gerst fyrr eða síðar. Og Cargolux riðaði til falls út af þessu.“

Fyrsta Boeing 747-þota Cargolux. Félagið rekur núna þrjátíu slíkar flugvélar.Cargolux

Hluthafafundur í Cargolux hafi þá ákveðið að færa hlutaféð niður um 90 prósent.

„Þannig að hlutur Loftleiða, sem var 33,3 prósent, fór niður í 3,3 prósent, sem er ekki neitt. Svo var sett inn aukið hlutafé. En þá börðust Flugleiðir fyrir lífi sínu, voru nærri gjaldþroti. Höfðu bara enga peninga, gátu varla haldið sér á floti. Það er ástæðan fyrir því að við misstum tökin á Cargolux.

Svo seinna voru þess 3,3 prósent seld fyrir góðan pening. En að þetta hafi verið selt fyrir slikk, það er vissulega rangt.“

-En var Sigurður Helgason andsnúinn Cargolux?

„Já, hann var það. Og hann meira að segja fór í samkeppni við Cargolux. Einar Ólafsson var mjög sár yfir þessu á sínum tíma,“ svarar Grétar.

Í þættinum Ísland í dag segir Grétar fleiri innanbúðarsögur úr fluginu og af átökum í kringum flugfélögin:


Tengdar fréttir

Helsti valdamaður flugsins var oftast utan sviðsljóssins

Hann var einn valdamesti maður íslenska fluggeirans um áratugaskeið og sá sem lengst allra sat í stjórn Flugleiða. Hann stóð þó utan sviðsljóssins þrátt fyrir að hafa allan sinn starfsferil jafnframt verið einn af lykilstjórnendum Loftleiða og síðar Flugleiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×