Skoðun

Betri strætó strax í dag

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar

Nú hefur tekið gildi ein stærsta þjónustuaukning Strætó um árabil. Með tíðari ferðum, lengri kvöldakstri og betra aðgengi verða almenningssamgöngur raunhæfur valkostur fyrir fleiri íbúa en áður. Hlutfall íbúa sem búa nálægt stoppistöð með 10-mínútna þjónustu á annatíma hækkar úr 18% í yfir 50% sem verður að kallast bylting í aðgengi. Þessi breyting er grundvallarskref í átt að framtíðarsýn þar sem almenningssamgöngur eru burðarás í sjálfbæru samfélagi og er hluti af innleiðingu Borgarlínu.

Á annatíma ganga nú leiðir 3, 5, 6 og 12 á 10 mínútna fresti, í stað 15 mínútna áður. Leiðirnar 19, 21 og 24 eru nú tvöfalt tíðari á annatíma og 3, 5, 12 og 15 utan annatíma. Með þessu aukast lífsgæði íbúa því víða er orðið einfalt að taka strætó án mikillar skipulagningar, tengingar verða öruggari og biðtími styttist verulega. Ég hvet þig til að prófa strax í dag!

Fjórtán leiðir, þar á meðal helstu tengileiðir höfuðborgarsvæðisins, ganga nú lengur á kvöldin. Þá stytta nýjar forgangsakreinar ferðatíma og koma strætó fram hjá umferðarþyngslum.

Þjónustuaukningin stendur ekki ein og sér heldur er hún hluti af víðtækri þjónustuumbótavinnu. Undir minni stjórmarformennskutíð í Strætó bs höfum við lagt mikla áherslu á notendamiðaða nálgun, þjónustumenningu og stöðugt samtal við farþega. Með því að hlusta á þarfir notenda og bregðast við með áþreifanlegum úrbótum er verið að byggja upp traust og styrkja stöðu almenningssamgangna. Með þessari þjónustuaukningu er sömuleiðis verið að leggja grunn að nýju leiðarneti og komu Borgarlínu.

Sterkar almenningssamgöngur draga úr umferðarteppum, minnka kolefnislosun, bæta heilsu, auka jafnræði í aðgengi að atvinnu og menntun og stuðla að betri nýtingu landrýmis. En þær stuðla líka að vellíðan og hamingju. Nú er lítið mál að rölta út á stoppistöð og taka næsta strætó og leyfa huganum að reika á leið til vinnu eða skóla í stað oft á tíðum stressandi aksturs. Það er jú besta leiðin.

Höfundur er formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur og fyrrum stjórnarformaður Strætó bs.




Skoðun

Sjá meira


×