Bíó og sjónvarp

Fram­leiða keflvískan krimma sem gerist á há­punkti kalda stríðsins

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lesli Bibb verður Captain Goodman í Top of the Rock sem Truenorth framleiðir.
Lesli Bibb verður Captain Goodman í Top of the Rock sem Truenorth framleiðir.

Hollywood-leikkonan Leslie Bibb mun leika aðalhlutverkið í glæpaþáttunum Top of the Rock sem gerast á hápunkti Kalda stríðsins og fjalla um dularfullt morð á bandarískum hermanni. Truenorth framleiðir þættina, Davíð Óskar Ólafsson leikstýrir og Jóna Atli Jónasson og Óttar M. Norðfjörð skrifa handritið.

Hollywood-miðillinn Hollywood Reporter greinir frá.

Leslie Bibb sem er þekktust fyrir leik sinn í Talladega Nights (2006), Iron Man (2008) og Law Abiding Citizen (2009) mun fylgja eftir góðri frammistöðu sinni í þriðju seríu af sjónvarpsþáttunum White Lotus (2025) með sex þátta glæpaseríunni Top of the Rock.

Leslie Bibb vakti lukku í Hvíta lótusblóminu.

Serían gerist árið 1983 á hápunkti kalda stríðsins og fylgjast áhorfendur með kapteininum Diane Goodman (Bibb) og herlögreglumanninum Söruh Ellis sem eru báðar staðsettar á Keflavíkurstöðinni. Þegar bandarískur hermaður finnst látinn við undarlegar kringumstæður við stöðina þurfa konurnar tvær að vinna með íslensku lögreglunni að rannsókn málsins. Fljótt kemur blekkingavefur í ljós.

Íslenska framleiðslufyrirtækið Truenorth framleiðir þættina ásamt Mystery Productions og Vertu. Þættirnir eru hugarsmíði Davíðs Óskars Ólafssonar og Jóns Atla Jónassonar og er Ragnar Jónsson meðhöfundur.

Davíð Óskar hefur komið að gerð ýmissa mynda og þátta.

Davíð Óskar mun leikstýra þáttunum en hann hefur áður leikstýrt nokkrum þáttum í seríunum The Valhalla Murders (2020) og Trom (2022) og framleitt fjölda kvikmynda og sjónvarpsþættina Fanga (2017). 

Handrit þáttanna er skrifað af Jóni Atla Jónassyni og Óttari M. Norðfjörð. Jón Atli byrjaði í leikhúsinu en færði sig yfir í sjónvarps- og kvikmyndagerð og hefur skrifað Djúpið (2012), Falskan fugl (2013) og Austur (2015) sem hann leikstýrði einnig. Óttar hefur getið sér gott orð sem rithöfundur og skrifaði handritið að glæpaþáttunum Reykjavík 112 (2025), The Darkness (2024) og The Valhalla Murders (2019).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.