Innlent

Sýknuð af ólög­legum inn­flutningi lyfja vegna rangra upp­lýsinga Lyfja­stofnunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Sambýlisfólkið var stöðvað á Keflavíkurflugvelli með óleyfilegt magn lyfseðilsskyldra lyfja.
Sambýlisfólkið var stöðvað á Keflavíkurflugvelli með óleyfilegt magn lyfseðilsskyldra lyfja. Vísir/Vilhelm

Sambúðarfólk sem var ákært fyrir ólöglegan innflutning á lyfseðilsskyldum lyfjum var sýknað á þeim forsendum að það hefði verið í góðri trú um það mætti flytja lyfin inn. Upplýsingar á vefsíðu Lyfjastofnunar um lyfin eru sögð hafa verið röng.

Tollverðir lögðu hald á töluvert magn af ávanabindandi lyfjum þegar fólkið var stöðvað við komuna til landsins frá Alicante á Spáni með viðkomu í Bristol á Englandi árið 2023. Þar á meðal voru örvandi lyf gegn ADHD, flogaveikis-, svefn- og kvíðalyf í meira magni en heimilt var að flytja inn til landsins.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi felldi mál gegn fólkinu niður í fyrra þar sem hann taldi það ekki líklegt að fólkið yrði sakfellt. Embætti ríkissaksóknara felldi þá ákvörðun úr gildi að kröfu tollgæslustjóra og var fólkið ákært fyrir tolla-, lyfja- og fíkniefnalagabrot.

Þrátt fyrir að fólkið hefði sannarlega haft meira af lyfjunum í fararangri sínum við komuna til landsins en reglugerð heimilaði sýknaði Héraðsdómur Vesturlands það af ákærunni á Þorláksmessu.

Upplýsingar á vefsíðu Lyfjastofnunar sem fólkið studdist við hefðu verið rangar áður en það ferðaðist til landsins og nokkru eftir það. Þær höfðu ekki verið uppfærðar eftir að reglugerð með strangari reglum um innflutning lyfjanna tók gildi árið 2022.

Ósannað væri því að fólkið hefði brotið gegn reglugerðinni af ásetningi eða gáleysi. Ákæruvaldið hefði heldur ekki dregið í efa að fólkið hefði verið í góðri trú og ekki vitað betur í ljósi þess að þau hefðu áður flutt inn lyfin í þessu magni til landsins.

Þá hefði ekki verið dregið í efa að lyfin væru ætluð fólkinu sjálfinu eða því haldið fram að það hefði reynt að fela innflutninginn. Það hefði jafnframt lagt fram lyfseðla spænsks læknis og fleiri skjöl um innflutninginn.

Ríkissjóður var dæmdur til að greiða lögfræðikostnað fólksins, 670 þúsund krónur í í hvoru máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×