Skoðun

Hver spurði þig?

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Hver spurði þig um bílastæðareglur Reykjavíkurborgar?

Sennilega ekki borgin.

Árið 2019 setti Reykjavíkurborg sér reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík. Það kann að hljóma skynsamlegt að setja viðmið um bílastæðafjölda við nýbyggingar. Þar til umræddar reglur eru lesnar.

Samkvæmt ferðavenjukönnunum nota um 70% fullorðinna Reykvíkinga bíl sem sinn aðal samgöngumáta til vinnu eða skóla. Fjölskyldubílinn er því lang mest nýtti ferðamáti borgarbúa en samt gera reglur borgarinnar ráð fyrir að hámarki 0,75 bílastæði við 2 herbergja íbúð á svæði 1 sem teygir sig yfir borgina endilanga.

Þau sem búa við nýbyggingar upplifa afleiðingarnar þessara reglna á hverjum degi, þ.e. skort á bílastæðum fyrir utan heimili þeirra. Við þekkjum öll sögur af fólki sem fær ekki að breyta hluta af garðinum í bílastæði, blokkir sem eru byggðar með 0,25 bílastæði á íbúð og umræðuna há bílastæðagjöld.

Reglur Reykjavíkurborgar um bílastæði eru umdeildar. Ekki af ástæðulausu enda eru þær mjög íþyngjandi fyrir borgarbúa og hafa bein áhrif á lífsgæði þeirra. Eðlilegt er því að spyrja borgarbúa hvernig þeir vilja að reglur borgarinnar um bílastæði sé háttað.

Raunverulegt ferðafrelsi felst ekki í því að þröngva öllum í einn samgöngumáta. Það felst í jafnvægi. Að byggja samtímis upp innviði fyrir bíla, hjól, strætó og gangandi vegfarendur. Fólk á að hafa raunverulegt val um ferðamáta, ekki aðeins þann kost sem borgarstjórnarmeirihlutinn telur æskilegan.

Yfirlýsingar fulltrúa meirihlutans benda þó til þess að sjónarmið þeirra séu úr takti við vilja borgarbúa. Borgarstjóri Samfylkingarinnar hefur til dæmis sagt að bílastæði sem nú eru fyrir utan heimili fólks séu ekki endilega örugg til framtíðar. Þá hefur nýr oddvitaframbjóðandi sama flokks lýst því yfir að bílastæðagjöld í Reykjavík séu of lág miðað við aðrar borgir.

Dæmi hver fyrir sig í næstu kosningum.

Við í Framsókn teljum tímabært að Reykjavíkurborg kanni afstöðu borgarbúa og leggjum til að gerð verði könnun á meðal Reykvíkinga á reglum borgarinnar um bíla- og hjólastæði. Slík könnun myndi gefa borginni heildstæðari mynd af vilja og þörfum íbúanna og nýtast við framtíðarákvarðanir.

Það er kominn tími til að borgin spyrji þig!

Höfundur er borgarfulltrúi Framsóknar.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×