Skoðun

Um upp­byggingu og starf­semi Arctic Adventures við Skafta­fell

Ásgeir Baldurs skrifar

Á síðustu vikum hefur komið fram gagnrýni á uppbyggingu Arctic Adventures í ferðaþjónustu við Skaftafell. Nú er svo komið að lögð hefur verið fram stjórnsýslukæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa sveitarfélagsins Hornafjarðar um byggingarheimild fyrir 13 gistihúsum á lóðinni Skaftafelli 3C frá því 26. nóvember 2025.

Þung orð og ýmsar staðhæfingar hafa fallið í sumum tilfellum og ekki tillit til þess tekið að húsin eru enn á byggingarstigi og því ekki um endanlega ásýnd að ræða, hvorki á húsum né umhverfi þeirra. Í því sambandi er afar mikilvægt að undirstrika að umrætt verkefni hefur frá upphafi verið unnið í fullu samræmi við lög og reglur og gildandi skipulag sveitarfélagsins og þau leyfi sem liggja fyrir. Hvergi var kvikað frá skipulagsskilmálum hvað varðar stærð né hæð húsanna.

Engu að síður höfum við hlustað á þá gagnrýni sem fram hefur komið og lýst því yfir að við séum reiðubúin að gera breytingar og aðlaga ásýnd þeirra bygginga sem þegar hafa risið betur að umhverfinu, lágmarka ljósmengun í umhverfi þeirra sem og endurskoða hönnun á næsta áfanga. Við höfum fundað fundað með fulltrúum sveitarfélagsins og lýst yfir vilja til áframhaldandi samtals við heimamenn um það sem snýr að framkvæmdum og áhrifum þeirra á svæðið.

Starfsemi Arctic Adventures í sveitarfélaginu

Því hefur einnig verið haldið fram í þessu sambandi að Arctic Adventures sé ekki raunverulegur vinnuveitandi á svæðinu heldur sé í raun að hafa störf og viðskipti af heimamönnum. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. Arctic Adventures er öflugur þátttakandi í atvinnulífinu í Öræfum og sveitarfélaginu Hornafirði og heldur úti fjölbreyttri starfsemi á borð við hótelrekstur, jöklagöngur og íshellaferðir. Hluti þeirra ferða er skipulagður af okkar starfsfólki á svæðinu og hluti er endursala á ferðum sem aðrir þjónustuaðilar á svæðinu selja. Við skipuleggjum einnig fjölda ferða frá höfuðborgarsvæðinu þar sem ferðamenn kaupa afþreyingu, veitingar og gistingu af heimamönnum. Þá á Arctic Adventures í viðskiptum við á annan tug birgja í sveitarfélaginu. Á síðasta ári sinntu um 54 starfsmenn hjá Arctic Adventures verkefnum í Skaftafelli og nágrenni og voru með lögheimili í sveitarfélaginu, þar af voru 38 á sama tíma yfir háönn.

Þátttaka í nærumhverfinu

Auk þess að reka atvinnustarfsemi höfum við tekið virkan þátt í samstarfi við nærsamfélög, meðal annars með stuðningi við björgunarsveitir og samstarfi við skóla- og frístundastarf. Slíkt samstarf undirstrikar hversu nátengd ferðaþjónustan er samfélaginu sem hún byggir á. Starfsfólkið okkar lítur á sig sem heimamenn og leggur sig fram við að vera góðir sveitungar í nærsamfélaginu.

Umræða um uppbyggingu, náttúruvernd og ferðaþjónustu er mikilvæg og nauðsynleg. Hún þarf þó að byggja á staðreyndum, samhengi og sanngirni. Við hjá Arctic Adventures og starfsfólk okkar tökum virkan þátt í ferðaþjónustutengdri starfsemi um land allt. Við höfum á undandförnum árum lagt áherslu á að byggja upp starfsemi sem byggir á gæðum, öryggi og virðingu við umhverfið.

Við viljum eiga gott samstarf við heimafólk í öllum landshlutum og vera virkur og ábyrgur þátttakandi í samfélaginu.

Höfundur er forstjóri Arctic Adventures.




Skoðun

Sjá meira


×