Viðskipti innlent

Upp­sagnir hjá Ís­lenskri erfða­greiningu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslensk erfðagreining er með höfuðstöðvar sínar í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Íslensk erfðagreining er með höfuðstöðvar sínar í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Íslensk erfðagreining ætlar að segja upp 45 manns í dag vegna skipulagsbreytinga hjá fyrirtækinu. Uppsagnirnar ná samkvæmt heimildum Vísis til margra deilda og reynslumikils starfsfólks sem starfar í höfuðstöðvunum í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Ekki hefur náðst í Unni Þorsteinsdóttur, forstjóra Decode, fyrir hádegi í dag. Starfsmaður í símsvörun hjá fyrirtækinu sagði ekki líkur á að ná tali af forstjóranum eða mannauðsstjóra í dag vegna fundarhalda.

Sú stóra breyting varð hjá Íslenskri erfðagreiningu í maí í fyrra að Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri, var rekinn frá fyrirtækinu. Tilkynnt var að Dr. Unnur Þorsteinsdóttir og Patrick Sulem tækju við stjórn fyrirtækisins og myndu leiða í sameiningu starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar á Íslandi.

„Fyrirtækið tók stefnumótandi ákvörðun um að skipta um forystu hjá deCODE genetics til að samræma betur við alþjóðlega rannsóknar- og þróunarstarfsemi okkar. Þessi ákvörðun endurspeglar skuldbindingu okkar til að viðhalda alþjóðlegri forystu deCODE í erfðarannsóknum og tryggja áframhaldandi þróun þess til að mæta vísindalegum áskorunum. Við erum þakklát fyrir framlag Dr. Stefánssonar og fullviss um að sú undirstaða sem hann byggði muni gera kleift að halda áfram nýsköpun og hafa jákvæð áhrif fyrir sjúklinga,“ sagði í yfirlýsingu frá Decode við það tilefni.

Lyfja- og líftæknirisinn Amgen keypti Íslenska erfðagreiningu árið 2012. Kári sagði í viðtali við Vísi í maí að hann hefði reynst Amgen erfiður ljár í þúfu. Reginmunur hefði verið á áherslum fyrirtækis eins og Íslenskrar erfðagreiningar og lyfjaframleiðandans bandaríska.

Vísir greindi frá því í morgun að fimmtán starfsmönnum hefði verið sagt upp hjá Alvotech í dag, nágrönnum Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýrinni, vegna skipulagsbreytinga.

Fréttin er í vinnslu.


Veistu meira um málið? Þú getur sent okkur fréttaskot hér eða sent okkur skilaboð á ritstjorn@visir.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×