Innlent

Nýtt upphaf hjá flokknum

Jónína Bjartmarz Kosið verður í forystusveit Framsóknarflokksins á flokksþingi sem fer fram dagana 18. og 19. ágúst næstkomandi.
Jónína Bjartmarz Kosið verður í forystusveit Framsóknarflokksins á flokksþingi sem fer fram dagana 18. og 19. ágúst næstkomandi. MYND/Stefán

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra tilkynnti í gær að hún gæfi kost á sér í kjöri til varaformanns Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi.

Jónína segir sitt helsta markmið gagnvart embættinu vera að stuðla að aukinni samstöðu innan flokksins og auka hlut hans í íslenskri pólitík. Einnig vill hún auka hlut kvenna bæði í starfi og áhrifastöðum innan Framsóknarflokksins. Lokamarkmiðið sé jafn hlutur karla og kvenna.

"Við erum mörg sem lítum svo á að þetta sé nýtt upphaf með þeim forystubreytingum sem orðið hafa innan flokksins með brotthvarfi Halldórs Ásgrímssonar."

Jónína segist hafa fengið mikla hvatningu til að gefa kost á sér í forystuna frá körlum og konum úr öllum kjördæmum. "Ég fékk framan af líka hvatningu til að gefa kost á mér í formanninn en ég sé í Jóni Sigurðssyni þann formann sem flestir geti sameinast á bak við að öllum öðrum ólöstuðum og svaraði mínum stuðningsmönnum því gagnvart formannsembættinu."

Jónína er sú þriðja sem gefur kost á sér í embætti í forystusveit Framsóknarflokksins fyrir komandi flokksþing. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur gefið kost á sér í embætti formanns og Haukur Logi Karlsson í embætti ritara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×