Skoðun

Olíuhreinsistöð stenst ekki lög

Árni Finnsson skrifar
Í viðtali við bæjarstjóra Ísafjarðar í Blaðinu 14. júlí segir hann að náttúruverndarsinnar hafi aldrei skapað nein störf. Það er einkennileg fullyrðing. Hvað með friðlandið á Hornströndum sem var stofnað fyrir tilstuðlan vestfiskra náttúruverndarsamtaka árið 1985? Þúsundir ferðamanna fara um þar um árlega og hafa skapað fjölda starfa fyrir Ísfirðinga um nærri fjögurra áratuga skeið. Hefur bæjarstjórinn ekkert heyrt um þá ferðamenn?

Áður hafði bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar beitt sér fyrir stóriðjulausum Vestfjörðum. Þess í stað skyldi nýta einstaka náttúru Vestfjarða til að laða að ferðamenn. Hvernig væri nú að bæjarstjórinn léti sér detta í hug að beita sér fyrir hvalaskoðun á Vestfjörðum? Það gæti skapað nokkur raunveruleg störf við arðbæra ferðaþjónustu.

Losun koltvísýrings vegna olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum með 8,5 milljóna tonna framleiðslugetu næmi ríflega einni milljón tonna á ári. Árið 1990 – viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar – var útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 3.355.453 tonn. Olíuhreinsistöð myndi því valda nærri 30% aukningu í útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Samkvæmt Kyoto-bókuninni hefur Ísland heimild til að auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 10% á tímabilinu 2008-2012 en talsmenn olíuhreinsistöðvarinnar tala um að stöðin geti verið tilbúin fyrir þann tíma. Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum gæti heldur ekki fallið undir hið íslenska ákvæði sem veitir undanþágu fyrir 8 milljónum tonna af koltvísýringi á tímabilinu 2008-2012 fyrir stóriðju. Alþingi samþykkti í vetur lög um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við skuldbindingar Íslands og því ljóst að olíuhreinsistöð á Vestfjörðum getur ekki fallið undir ákvæði þeirra laga.

Ljóst er að eftir 2012 verða öll iðnríkin að draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda eigi að takast að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar. Undir það hafa íslensk stjórnvöld tekið á alþjóðavettvangi og þar með skuldbundið sig til aðgerða. Staðreyndin er sú að verði ekki dregið verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á næstu 10-12 árum verður bráðnun Grænlandsíss ekki umflúin og þar með endar miðborg Reykjavíkur undir vatni. Olíuhreinsistöð er því ógnun við framtíð okkar.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×