Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, gagnrýndi stjórnendur bresku verslanakeðjunnar Woolworths harðlega í viðtali við breska dagblaðið Financial Times í gær. Jón sagði óráð að verja fé í endurnýjun verslana sem ekki skili hagnaði og ætti stjórnin að taka sig á til að snúa rekstrinum við. Hagnaður Woolworths dróst saman um 73 prósent í fyrra, sem var versta ár í sögu verslanakeðjunnar.
Baugur Group er einn stærsti hluthafi Woolworths í gegnum fjárfestingafélagið Unity Investments, sem er auk Baugs í eigu FL Group og breska fjárfestisins Kevin Stanfords.
Í viðtalinu kemur fram að Jón gagnrýnir harðlega áætlun stjórnarinnar að endurnýja 800 verslanir undir merkjum Woolworths á sama tíma og viðskiptavinum fækkar og sala hefur dregist saman. Sagði Jón að fyrirtækið gæti lent í vandræðum vegna þessara fyrirætlana.
Woolworths skilaði hagnaði upp á 7,3 milljónir punda, jafnvirði 969,66 milljóna króna, fyrir skatt í fyrra. Árið áður nam hagnaðurinn hins vegar 43,7 milljónum punda, rúmlega 5,8 milljörðum íslenskra króna. Afkoman var talsvert undir væntingum greinenda.
Trevor Bish Jones, forstjóri Woolworths, sagði í samtali við dagblaðið The Scotsman skömmu eftir að uppgjörið lá fyrir að staðan væri fjarri því að vera ákjósanleg en vonaðist til að hagræðingaaðgerðir og fjárfestingar verslanakeðjunnar muni skila sér í betri afkomu á þessu ári.
Gengi hlutabréfa í Woolworths lækkaði lítillega við lokun markaða í Bretlandi í gær og stóð í 30 pensum á hlut. Lækki gengið um hálft pens hefur það ekki verið lægra í fjögur ár.
Jón Ásgeir skammar stjórn Woolworths

Mest lesið

Tilefni fyrir ríkið að íhuga sölu Landsbankans
Viðskipti innlent

Reka forstjóra danska lyfjarisans sem malar gull á Ozempic
Viðskipti erlent


Gömlu höfuðstöðvar Icelandair verða hjúkrunarheimili
Viðskipti innlent

Himinlifandi og ekki hugsi yfir litlum hlut fagfjárfesta
Viðskipti innlent


Ríflega þrjátíu þúsund einstaklingar kaupa hlut ríkisins
Viðskipti innlent

„Þetta er framar okkar björtustu vonum“
Viðskipti innlent

Líklega stærsta eignasala ríkissjóðs frá upphafi
Viðskipti innlent
