Skoðun

Ástráður Haraldsson: Ábyrgð ráðherra

Ástráður Haraldsson skrifar
Á dögunum féll í héraðsdómi dómur í máli eins umsækjenda um dómarastöðu í norðaustur-amtinu. Sá taldi settan dómsmálaráðherra hafa brotið á sér með því að skipa síður hæfan umsækjanda í stöðuna. Niðurstaðan varð áfall fyrir dómsmálaráðherra og ríkið. Það er að vonum. Þetta tilvik er í hópi ömurlegustu dæma um misbeitingu opinbers valds hér á landi. Hitt vakti athygli að héraðsdómur taldi settan dómsmálaráðherra persónulega ábyrgan í málinu. Þetta er mikið áhorfsmál. Fram að þessu hafa þeir sem orðið hafa fyrir valdníðslu ráðherra getað stefnt ríkinu. Sumir jafnvel náð rétti sínum. Ríkið þá verið dæmt til að greiða þeim bætur. Staðan er svona: Við höfum hálfrar aldar gömul lög um ráðherraábyrgð, byggð á 14. gr. stjórnarskrár. Þar segir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnsýslu sinni. Að lög skuli sett um ráðherraábyrgð. Að ákæruvald sé í höndum Alþingis og að Landsdómur dæmi þau mál. Þetta kerfi hefur að vísu aldrei virkað.

Vafalaust er að í núgildandi fyrirkomulagi fellst að refsiábyrgð vegna embættisbrota verður ekki felld á þann sem gegnir eða gegnt hefur embætti ráðherra af öðrum en Landsdómi. Hið sama hafa ýmsir talið að ætti að gilda um skaðabótaábyrgð. Þessu hafnar héraðsdómur. Telur þá ábyrgð fara að almennum reglum. Einnig um aðild að málum. Þetta kann að vera fræðilega umdeilanlegt. Hitt sýnist augljóst; sé það misskilningur að persónuleg bótaábyrgð vegna embættisbrota fari ekki að kerfi ráðherraábyrgðarlaga verður að breyta því. Það er ómögulegt að þeir sem trúað er fyrir því að fara með ráðherravald þurfi að verja ákvarðanir sínar persónulegri bótaábyrgð andspænis þeim sem eru ósáttir við þær ákvarðanir.

Ímyndum okkur að ráðherrar hrunstjórnarinnar hefðu staðið í lappirnar gagnvart bönkunum. Tekið á þeim til að verja hagsmuni þjóðarinnar. Áttu þeir þá að þurfa að sitja undir hótunum um persónulega skaðabótaábyrgð? Að formúu yrði varið til að siga á þá hjörð lögmanna? Má gera ráð fyrir að það hefði bætt frammistöðu þeirra?

Endurskoðun ráðherraábyrgðarlaga er brýn. Það kerfi verður að virka. Lausnin er ekki sú að fá sérhagsmunaklíkunum í hendur ný tæki til að stýra ráðherrum. Hitt er líka brýnt; Á næstu árum munu ganga til dóms mörg mál sem á einn eða annan hátt munu fjalla um uppgjör vegna hrunsins. Þá reynir á að dómstólarnir standi í lappirnar. Einnig þeir fara með opinbert vald. Það er ekki þeirra hlutverk að berast með straumi almenningsálitsins. Reynslan sýnir hvað það er hættulegt þegar valdhafarnir falla í þá gryfju.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×