Skoðun

Gegn fátækt

Þorvaldur Gylfason skrifar
Fátækt er ranglát, einkum gagnvart bjargarvana börnum, sem ráða engu um afkomu sína. En fátækt fer minnkandi um allan heim. Baráttan gegn fátæktinni hefur borið árangur. Um þennan árangur má hafa margt til marks. Sárasta fátækt líða þeir, sem þurfa að draga fram lífið á 1,25 Bandaríkjadollurum á dag eða minna. Alþjóðabankinn hefur fylgzt með þessum hópi frá 1981. Fyrir 30 árum þurftu þrír af hverjum fjórum íbúum Austur-Asíu að gera sér að góðu 1,25 dollara á dag, en nú er hlutfallið komið niður í einn af hverjum sjö. Í Suður-Asíu þurftu sex af hverjum tíu að láta sér duga 1,25 dollara á dag 1981, en nú er hlutfallið komið niður í röskan þriðjung. Í Suður-Ameríku hefur allra fátækasta fólkinu fækkað úr 12% af mannfjöldanum 1981 niður í 6% 2008. Framsóknin hefur verið hægari í Afríku. Þar lifðu 52% mannfjöldans á 1,25 dollurum á dag eða minna fyrir 30 árum, en nú er hlutfallið 48%. Afríka hefur rétt úr kútnum síðustu ár. Sum þeirra landa, sem búa við mestan hagvöxt nú, eru í Afríku. Botsvana á heimsmet í hagvexti frá 1965.

Hagtölur segja þó ekki nema hálfa söguna um árangurinn af baráttunni við fátækt. Nýfætt barn í Kína 1960 gat vænzt þess að ná 43 ára aldri. Nú getur kínverskur hvítvoðungur vænzt þess að verða 73 ára. Meðalævin í Kína hefur því lengzt um 30 ár á hálfri öld eða um röska sjö mánuði á ári. Það er bylting. Í Indlandi hefur meðalævin lengzt úr 42 árum 1960 í 65 ár 2010 eða um næstum sex mánuði á ári. Þetta skiptir máli m.a. vegna þess, að þriðjungur mannkyns á heima í Indlandi og Kína. Betri hagstjórn og frjálsari viðskipti eiga ríkan þátt í þessum umskiptum þar og víða annars staðar. Þróunarsamvinna hefur gert gagn. Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur gott og þarft verk.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×