Ráðstefnan hefur fest sig í sessi sem vettvangur númer eitt á Íslandi til að leiða saman íslenskt hugvit, sprota og fjárfesta. Ráðstefnan er hugarfóstur Indverjans Bala Kamallakharan, en hann hefur verið búsettur hér í mörg ár. Bala kom í Klinkið á dögunum en það má sjá hér.
„Hvert ár viðist vera það stærsta en í ár fylltum við húsið mun hraðar en við bjuggumst við,“ sagði Bala í samtali við Stöð 2 í Hörpu.
Forsetinn verið velgjörðarmaður Startup Iceland frá upphafi
Að þessu sinni voru fjárfestar og fyrirlesarar mættir frá nær öllum heimshornum. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn en hann hefur verið velgjörðarmaður Startup Iceland.

Frumtak er sjóður sem fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og er í eigu þriggja banka og sex lífeyrissjóða. Dr. Eggert Claessen er framkvæmdastjóri Frumtaks en fulltrúar sjóðsins mæta alltaf á Startup Iceland.
Góðar hugmyndir koma alltaf
„Það er afskaplega gaman að vera hérna í dag og vera vitni að því sem er að gerast hér. Þessu samtali sem er að eiga sér stað á milli sprotanna og þeirra hagsmunaaðila sem að þeim koma,“ segir Eggert. Hann segir að gróskan sé enn mest í hugbúnaðarþróun þar sem stofnkostnaður sé svo lár þótt sprotar sem framleiði harðar vörur eins og Lauf Forks og fleiri hafi náð árangri. Þess má geta að Benedikt Skúlason, stofnandi Lauf Forks, kom fyrr á þessu ári í Klinkið.
„Auðvitað er miklu auðveldara og aðgangashindrunin miklu minni þegar kemur að hugbúnaðarfyrirtækjunum. Það breytir því hins vegar ekki að við erum að fá góðar hugmyndir á mörgum sviðum, hvort sem það eru gafflar fyrir hjól eða flökunartæki fyrir fisk. Góðar hugmyndir koma alltaf,“ segir Eggert.