Skoðun

Inn­flytj­endur eru tæki­færi ekki ógn

Elín Hirst skrifar

Hvar sem komið er í heiminum, og spurt hverjir standi best að málefnum hælisleitenda er Noregur nefndur til sögunnar. Íslensk stjórnvöld hafa nú leitað í smiðju Norðmanna hvað varðar málefni hælisleitenda og er það vel. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti nýlega fyrir breytingum á útlendingalögum á Alþingi, að norskri fyrirmynd sem er að mínum dómi afar metnaðarfull og skynsamleg lagabót.



Frumvarpið felur meðal annars í sér að stofnuð verði sjálfstæð kærunefnd sem taki til meðferðar kærur á úrskurðum Útlendingastofnunar vegna mála er varða komu, dvöl eða hælisumsókn útlendinga. Fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, réðst í mikið átak til styttingar málsmeðferðartíma hælisumsókna vorið 2013 og á hann einnig hrós skilið fyrir það.



Afar mikilvægt er að sá mikli fjöldi sem sækir um að fá hér pólitískt hæli fái skýr og rökstudd svör eins fljótt og kostur er. Því miður fæst aldrei jákvætt svar við öllum beiðnum. Við búum við alþjóðlega löggjöf samhliða þeirri íslensku og þar sem rammi hefur verið settur í kringum þá alþjóðlegu vernd sem felst í pólitísku hæli. Enn fremur að það beri að forgangsraða í þágu þeirra sem mest eru taldir þurfa á slíkri hjálp að halda, eins og kom fram í máli Hönnu Birnu á Alþingi.



Það kvað einnig við góðan tón í máli innanríkisráðherra. Hún hvatti okkur Íslendinga til að sýna umburðarlyndi og skilning og líta á það fremur sem tækifæri en ekki ógn að fá innflytjendur hingað til lands.



Sérstaka athygli mína vöktu orð innanríkisráðherra um að ráðherrar í nágrannalöndum okkar líti nú á það sem eina helstu ógnina við Evrópu, ekki síst efnahagslega, að innflytjendur sniðgangi í vaxandi mæli álfuna. Þar með fari Evrópa á mis við þekkingu, dugnað og ný viðhorf fólks úr ólíkum áttum.



Við Íslendingar eigum að fagna því að þeir sýni áhuga á að bæta mannlíf á Íslandi eins og Hanna Birna boðaði í ræðu sinni.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×