Skoðun

Útlendingamálin á réttri leið

Sigurjón Þórðarson skrifar

Ríkisstjórnin hefur lagt fram og boðað nokkur mál sem miða að því að stórbæta útlendingakerfið. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra er með fimm frumvörp á þingmálaskrá sem tengjast útlendingamálum. Þá eru fleiri ráðherrar með mál sem einnig tengjast málaflokknum. Þar má nefna frumvarp Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra um hertar reglur á leigubílamarkaði og Frumvarp Loga Más Einarssonar menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um álagningu skólagjalda á háskólanemendur sem hingað koma utan EES-svæðisins.

Það er talsvert verk að vinna eftir verkleysi og óstjórn Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum á liðnum árum. Það er öfugsnúið að þeir sem hafa hve hæst um stöðuna í málaflokknum, þvældust fyrir því með málþófi í vor og sumar að frumvarp um afturköllun verndar þeirra sem brjóta stórlega eða ítrekað af sér næði fram að ganga.

Það er mikilvæg ákvörðun að koma upp brottfararstöð sem einfaldar utanumhald og framkvæmd brottvísun þeirra sem neita að yfirgefa landið eftir að hafa verið synjað um vernd og dvalarleyfi. Það liggur fyrir að breyta eigi þáttum í löggjöfinni sem snúa almennt að dvalar- og atvinnuleyfum, fjölskyldusameiningum og 18 mánaða sér íslensku reglan verður afnumin og svo mætti lengi telja.

Sér íslenska 18 mánaða reglan felur í sér að umsækjendur fá sjálfkrafa útgefið dvalarleyfi ef afgreiðsla mála þeirra tefst um meira en eitt og hálft ár. Hún hefur falið í sér hvata til umsækjenda til að tefja mál með öllum ráðum til að virkja framangreint ákvæði. Þetta hefur kostað ríkissjóð fúlgur fjár.

Farsælasta leiðin til úrbóta í flestum málum er að ræða hreinskilnislega um þær áskoranir sem við er að etja. Það er einmitt gert í skýrslunni „Ísland í örum vexti“ sem er afrakstur starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði um útgáfu dvalarleyfa. Þar er meðal annars bent á tuttugu og fimm sér íslenskar reglur í útlendingamálum sem nú stendur til að breyta.

Skýrslan hefur verið uppspretta frétta af útlendingamálum frá því hún kom út og er þegar byrjuð að nýtast við að koma skikk á málaflokkinn. Nú hefur til dæmis verið ákveðið að framvegis verði erfðaefni þeirra sem óska eftir að koma til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar rannsakað áður en viðkomandi fær leyfi til að koma til landsins.

Landamæraeftirlitið er sem betur fer að eflast og nú berast reglulega fréttir af frávísun brotamanna við landamærin. Stofnanir málaflokksins eins og Útlendingastofnun, lögregla og fleiri fá skýran pólitískan stuðning um að framfylgja lögum, í stað átaka sem ríktu um þau mál í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Það er jákvætt að hingað komi heiðarlegt fólk sem ætlar að leggja gott af mörkum til samfélagsins og ber virðingu fyrir vestrænum gildum. Glæpamenn sem leggjast á bótakerfið eru hins vegar ekki velkomnir. Við í Flokki fólksins erum ánægð með framvinduna í útlendingamálum.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×