Skoðun

Fölsk bros, því bráðum er kosið

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi.“ „Laun þeirra ríku hækka hraðar.“ Að mínu mati fanga þessar tvær fyrirsagnir, sem birtust í fjölmiðlum á síðustu dögum, það í hnotskurn um hvað verður kosið 29. október.

Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna. Það sést ekki alltaf, heilt yfir getur samfélagið verið á réttri leið, hagtölur að skána, einhverjar breytur í útreikningum líka og jafnvel finnum við það sum hver á eigin skinni að staðan er að batna. En misskiptingin verður ekki falin í tölum um meðaltalshækkun. Það hvernig þeir sem halda áfram að hafa það betra, verða enn ríkari, fá enn meira til sín en aðrir. Fölsk bros stjórnmálamanna og enn falskari loforð rétt fyrir kosningar breyta engu um þessar staðreyndir.

Síðasti áratugur hefur verið þjóðinni erfiður. Ruglhagkerfi fyrirhrunsáranna kippti raunveruleikanum úr sambandi og svo var öllum kippt niður á jörðina með hruninu. Efnahagslífið var í rúst og öll orka stjórnvalda fór í að koma því aftur á réttan kjöl. Það tókst og hægt og rólega hefur landið verið að rísa, allt að rétta úr kútnum. Og ekki endilega hægt, þetta hefur tekið undraskamman tíma í raun.

Einmitt þess vegna skiptir máli hverjir setjast við stjórnvölinn eftir þessar kosningar, hvaða flokkar það eru sem koma að því að hanna það samfélag sem við viljum sjá, að nýta betri efnahagsstöðu á sem réttastan máta. Hvort við viljum auka jöfnuð, hvort við viljum að þeir sem verst hafa það njóti efnahagsbatans, hvort við viljum styrkja velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, hvernig við viljum nýta þá stöðu að ríkið heldur utan um stærstan hluta fjármálakerfisins til að koma samfélagssjónarmiðum þar inn.

Fyrir mér eru þetta stóru málin. Og flokkar sem rétt fyrir kosningar muna eftir því að til er fleira fólk en fjármagnseigendur og fleiri félög en aflandsfélög eru ekki trúverðugir til að standa sig vel í þessu. Til þess treysti ég Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×