Skoðun

Heilsueflandi sund og bókalán án endurgjalds

Heiða Björg Hilmisdótir skrifar
Reykjavík er heilsueflandi samfélag sem þýðir að við sem sitjum í borgarstjórn og í ráðum borgarinnar eigum stöðugt að vera að leita leiða til að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma eða langvinns atvinnuleysis með margvíslegu forvarna- og heilsueflingarstarfi.

Einnig menningarkort

Ein af fjölmörgum ráðstöfunum er að ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum borgarinnar geta boðið fólki sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu, eða hefur verið án atvinnu í lengri tíma, upp á að fara í sund og að fá lánaðar bækur á bókasöfnum borgarinnar án þess að greiða fyrir það. Í ár mun menningarkortið einnig standa þessum hópi fólks til boða sem inniber aðgengi að söfnum borgarinnar.

Getur skipt sköpum

Rannsóknir hafa sýnt að það að vera atvinnulaus til lengri tíma er hættulegt bæði andlegri og líkamlegri heilsu viðkomandi og jafnvel fjölskyldu hans. Það að koma sér upp rútínu og virkni getur skipt sköpum og því getur þessi tiltölulega ódýra leið borgarinnar skipt sköpum fyrir þessa einstaklinga.

Öryrkjar, eldri en 67 ára og starfsmenn borgarinnar geta einnig farið í sund í Reykjavík án þess að greiða fyrir það þar sem við viljum auðvelda þessum hópum fólks að stunda þær heilsulindir sem sundlaugarnar okkar eru sannarlega. Til að stuðla að þeirra heilbrigði og um leið að góðu samfélagi.

Samfélag fyrir alla

Sjálfstæðismenn hafa verið á móti þessu og reyndar hafa þeir líka lagt til tugprósenta lækkun fjárhagsaðstoðar til framfærslu sem er um 180 þúsund í dag. Þarna má sjá skýran áherslumun í pólitík, við viljum byggja samfélag fyrir alla en ekki bara suma.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×