Skoðun

Heilbrigðiskerfið er hjartað í góðu samfélagi

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Samfélag þar sem heilbrigðiskerfið er öflugt er gott samfélag. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð áhersla á eflingu hins opinbera heilbrigðiskerfis, þannig að markmiðinu um aðgang allra að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu verði náð. Fjárframlög til heilbrigðismála verða því aukin verulega samkvæmt fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar en heildarhækkun framlaga til heilbrigðismála milli fjárlaga 2017 og 2018 nemur ríflega 21 milljarði króna. Ríkisstjórnin mun ekki einkavæða frekar í heilbrigðiskerfinu heldur auka útgjöld til opinbera heilbrigðiskerfisins.

Sem dæmi um málaflokka þar sem framlög eru aukin samkvæmt fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar má nefna að sjúkrahúsþjónusta á landinu öllu verður styrkt verulega. Með styrkingu sjúkrahúsþjónustu verður til að mynda mögulegt að efla innviði spítalans og rekstur, fjölga starfsfólki og endurnýja tækjakost. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig aukið við framlög til heilsugæslunnar og niðurgreiðslur tannlæknakostnaðar aldraðra og örorkulífeyrisþega eru auknar. Framlög vegna hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu hækka, svo mögulegt verður að fjölga hjúkrunarrýmum og efla öldrunarþjónustu. Sömuleiðis eru framlög vegna lyfja og lækningavara hækkuð. Brýn þörf stendur til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landinu öllu. Sérstök áhersla er lögð á geðheilbrigðisþjónustu í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og fjárlagafrumvarpið ber þess merki. Áætlað er að fjárveitingar til geðheilbrigðisþjónustu, bæði á sjúkrahúsum og heilsugæslum, hækki verulega.

Í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að hlúa betur að þolendum kynferðisofbeldis og berjast gegn kynferðisofbeldi er viðbótarframlag veitt til þjónustu við þolendur kynferðisbrota á Neyðarmóttöku til að koma til móts við þolendur kynferðisofbeldis á landsbyggðinni.

Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Til þess að við getum boðið upp á heilbrigðiskerfi sem er samkeppnishæft í alþjóðlegu samhengi þarf að treysta hið opinbera kerfi. Það munum við gera.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×