Útgerðarfélagið Brim þyrfti að losa sig við eignir fari svo að hluthafar í HB Granda samþykki yfirtökutilboð Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims og stjórnarformanns HB Granda.
Vefmiðillinn Undercurrent News greinir frá því að útgerðarfélagið Ögurvík eða Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum komi helst til greina. Brim keypti í apríl 34,1 prósents hlut Kristjáns Loftssonar í HB Granda á um 21,7 milljarða.
Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti verður Brim að leggja fram yfirtökutilboð til annarra hluthafa í HB Granda, en það virkjast þegar hluthafi eignast samtals að minnsta kosti 30 prósenta atkvæðisrétt í félagi sem skráð er í Kauphöllinni. Yfirtökutilboðið rennur út 1. júní.
Brim er búið að tryggja sér fjármögnun frá Landsbankanum upp á tæpa 22 milljarða en hærri upphæð fæst ekki. Því er ljóst að meira þarf til til að fjármagna kaupin á HB Granda, fari svo að hluthafar samþykki yfirtökutilboðið.
