Skoðun

Náttúrulaus umræða í boði Vesturverks

Tómas Guðbjartsson skrifar
Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með umræðunni um Hvalárvirkjun á Ströndum undanfarnar vikur í aðdraganda kosninga. Minnsta sveitarfélag landsins er klofið í herðar niður og þrír af fimm fulltrúum sveitarstjórnar Árneshrepps, með sveitarstjórann í broddi fylkingar, leggja allt í sölurnar til að þröngva í gegn umdeildri og óafturkræfri framkvæmd.

Hjólin eru smurð með margvíslegum stuðningi og loforðum framkvæmdaaðilans Vesturverks, sem meðal annars hefur greitt lögfræðireikninga sveitarstjórnar og reikninga ótengda framkvæmdinni, líkt og komið hefur fram undanfarið. Hvar eru raddir þeirra Vestfirð- inga sem vilja staldra við og leyfa náttúrunni að njóta vafans? Þessar raddir eru til, það veit ég vel eftir fjölmargar heimsóknir mínar á Vestfirði í gegnum árin. Nýverið stóð ég fyrir fjölsóttum fyrirlestri á Ísafirði um ósnortin víðerni. Þeir ráðamenn vestfirskir sem mest hafa gagnrýnt viðhorf náttúruverndarsinna mættu ekki á fundinn.

Nokkrum dögum síðar fjölmenntu þeir hins vegar á málþing á vegum Vesturverks á Ísafirði. Ég hef síðan reynt að fá ýmsa aðila fyrir vestan til að skipuleggja annað málþing sem væri opið öllum og þar sem fleiri viðhorf gætu komið fram. Enginn hefur sýnt þessu erindi mínu áhuga, nema Vestfjarðastofa sem vill þó aðeins halda málþingið eftir kosningar! Tíminn til að ræða svo umfangsmikla og umdeilda framkvæmd er hins vegar einmitt fyrir kosningar. Það er vert að íhuga af hverju raddir þeirra sem vilja vernda ósnortnu víðernin upp af Ófeigsfirði hafa ekki verið meira áberandi á Vestfjörðum.

Þessi víðerni eru við þröskuld mestu náttúrugersema Vestfjarða, Drangaskarða og friðlandsins á Hornströndum. Gæti skýringin verið sú að valdamiklir aðilar innan kjördæmisins vilja stýra umræðunni? Nýlega sendi Vesturverk snotran bækling inn á öll heimili á Vestfjörðum. Þar eru kostir virkjunar tíundaðir með aðaláherslu á aukið rafmagnsöryggi á Vestfjörðum. Aukið rafmagnsöryggi er vissulega brýnt úrlausnarefni fyrir Vestfirðinga en Hvalárvirkjun mun ekki leysa þann vanda. Lítið er rætt um hringtengingu rafmagnslína á Vestfjörðum, sem lengi vel var ein helsta röksemdin með virkjun, en þau rök virðast nú hafa misst vægi – enda ekkert fast í hendi um framkvæmd slíkrar hringtengingar.

Drynjandi sl. sumar og tölvugerð mynd eins og ætla má að fossinn líti út eftir virkjun Hvalár. Fólkið efst á myndinni sýnir stærð fossins og árgljúfursins.Tómas Guðbjartsson
Sama á við um fjölda langtímastarfa við virkjunina sem talsvert var gert úr um hríð en verða líklega engin. Loforð um aukið afhendingaröryggi rafmagns og aukna atvinnu fyrir Vestfirðinga eru því orðin tóm. Í sama bæklingi lofar Vesturverk að verði af virkjun muni þeir sjá um að klæða skólahúsið í Árneshreppi og leggja hitaveitu og þriggja fasa rafmagn í Norðurfjörð.

Enn dapurlegra er þó fyrirheit verktakans um að opna fyrir rennsli í Hvalá yfir hásumarið þannig að ferðamenn geti notið fossins Drynjanda með fullu vatnsrennsli, en verði af virkjun verður rennsli í honum að jafnaði aðeins 5% af meðalrennsli. Drynjandi er einn af fimm fossum á þessu svæði sem eru ómetanlegir og á heimsmælikvarða.

Nafn sitt dregur fossinn af drununum sem myndast þegar vatnið fellur beljandi niður í næstum 100 metra djúp árgljúfrin sem eru með þeim tilkomumestu á Vestfjörðum. Verði af virkjun munu drunurnar hverfa og í stað hvítu ábreiðunnar blasir við veiklulegur strengur.

Ég trúi því ekki að Vestfirðingar vilji fórna svona „Gullfossi“ fyrir megavött til stóriðju – enda gæti hann óvirkjaður, ásamt mörgum öðrum fossum á svæðinu, skapað íbúum Árneshrepps og Vestfirðingum öllum ómetanleg verðmæti. Nátt- úran getur nefnilega verið meira virði ósnortin til lengri tíma en virkjuð. Munum af hverju ferðaþjónusta er orðin helsta tekjulind Íslendinga í dag.

Veigamestu rökin fyrir verndun svæðisins eru þó að gefa komandi kynslóðum Íslendinga og ferðamanna færi á að njóta þessara einstöku náttúrugersema fremur en að selja þær erlendum auðjöfrum og auðsveipum umboðsmönnum þeirra.

Höfundur er læknir


Tengdar fréttir

Stórar ákvarðanir bíða hreppsnefndar

Varaoddvitinn í Árneshreppi þar sem hart er deilt um fyrirhugaða Hvalárvirkjun segir þá sem skráð hafa lögheimili sitt í hreppinn að undanförnu hljóta að hafa gert það til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningunum. Hann viti þó ekki hvað þetta fólk ætli sér að kjósa.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×