Skoðun

Töfralausnin

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Æskilegt hlutfall bólusettra þarf að vera 95 prósent til að hindra útbreiðslu ef mislingar berast til landsins. Samkvæmt upplýsingum Embættis landlæknis um þátttöku í almennum bólusetningum barna á Íslandi í fyrra var hlutfall þátttöku í MMR-bólusetningunni (mislingar, hettusótt, rauðir hundar) við 18 mánaða aldur undir viðmiðunarmörkum á landinu öllu. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið 91 prósent. Hlutfall bólusettra hér á landi hefur minnkað á undanförnum árum. Þetta er þróun sem á sér stað á sama tíma og smitleiðir til landsins verða fleiri og margþættari, og um leið og fjöldi mislingasmita nær nýjum hæðum í Evrópu.

Umræðan um að gera bólusetningar að skyldu hefur því á ný, og ekki að tilefnislausu, skotið upp kollinum. Vísbendingar eru um að flestir foreldrar hér á landi muni taka jákvætt í slíka breytingu. Könnun Fréttablaðsins frá því í mars 2015 gaf til kynna að 82 prósent landsmanna væru hlynnt því bólusetningar yrðu skyldubundnar. Um leið er vitað að yfirgnæfandi hluti Íslendinga er almennt hlynntur bólusetningum, eða í kringum 95 prósent. Af hverju erum við þá undir viðmiðunarmörkum? Sóttvarnalæknir hefur bent á að bæta þurfi eftirlit með þátttöku í bólusetningum; að tímar í ungbarnavernd sem falla niður verði endurbókaðir, að óbólusett börn fái sprautu þegar þau fara í læknisheimsókn af öðrum ástæðum.

Lykilatriði í tengslum við bólusetningar er og verður fræðsla. Okkar kynslóð hefur takmarkaða reynslu af þeim hörmungum sem Íslendingar forðum daga upplifðu er hver farsóttin á fætur annarri dundi á landinu. Pestir sem þessar eru nú lítið annað en stuttur kafli í sögubókunum. Lækkandi hlutfall bólusettra víða í Evrópu ber með sér skýr merki vanþekkingar á mikilvægi bólusetninga og, í sumum tilfellum, vantrausts á læknavísindunum.

Svo má vel vera að á einhverjum tímapunkti verði nauðsynlegt að grípa til beinna aðgerða, t.d. með því að gera bólusetningu að skilyrði fyrir leikskólagöngu. Á þeim tímapunkti verður vonandi horft til reynslu þeirra Evrópuþjóða sem innleitt hafa hvata af þessu tagi. Hingað til hefur ekki tekist að sýna fram á aukið hlutfall bólusettra barna í löndum þar sem þær eru skylda.

Innleiðing skyldubundinna bólusetninga á Íslandi mun fyrst og fremst beinast að afar fámennum hópi einstaklinga sem af einhverjum ástæðum ber ekki traust til læknavísindanna, og er ólíklegur til þess að taka sönsum á þeim forsendum einum að nú séu bólusetningar skylda, en ekki valkvæðar. Þvert á móti fær þessi hópur þar með staðfestingu á sinni afvegaleiddu sannfæringu.

Að öllum líkindum er heppilegasta leiðin blanda jákvæðra hvata og aukinnar fræðslu. Samtalið eitt, eins og það samtal sem á sér stað nú, getur hjálpað svo lengi sem það byggir á staðreyndum og fer fram án gífuryrða og öfga.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×