Skoðun

Fjárfest í háskólastiginu

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Hagvöxtur hér á landi verður í framtíðinni fremur drifinn áfram af hugviti en auðlindum. Með því fæst meira jafnvægi í þjóðarbúskapinn og minni líkur eru á sveiflukenndum vexti í efnahagslífinu. Til þess að stuðla að slíku jafnvægi og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Fjárlög ársins 2019 sem kynnt voru á dögunum bera þessari áherslu stjórnvalda glöggt vitni.

Heildarfjárframlög háskólastigsins munu nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða eða um 5% milli ára. Þetta eru háar fjárhæðir en sýnt er að hver króna sem fer í fjárfestingu á háskólastiginu skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins.

Sem dæmi um hækkanir innan málefnasviðs háskólastigsins eru fjárveitingar til reksturs háskóla og rannsóknastofnana sem hækka um 245 milljónir kr. milli ára og framlög til fræða- og þekkingarsetra sem hækka um 50 milljónir kr. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig fylgt eftir áherslum um nýliðun kennara með sérstöku 50 milljóna kr. framlagi til endurskoðunar á kennaranámi.

Stuðningur við námsmenn eykst um 3,5% milli ára, heildarfjárheimild þess málaflokks fyrir árið 2019 er áætluð 8,2 milljarðar kr. og hækkar um tæpar 282 milljónir kr. frá fjárlögum þessa árs vegna aukins framlags til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Vinnu við endurskoðun á LÍN miðar vel áfram og er stefnt að því að frumvarp þess efnis fari í opið samráð á fyrri hluta ársins 2019.

Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Sé miðað við nýjasta meðaltal Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um framlag á hvern háskólanemanda stefnir í að árið 2020 hafi Ísland náð því markmiði eins og ráðgert er í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Menntun er forsenda samkeppnishæfni okkar til framtíðar og því þurfa fjárfestingar okkar að taka mið af.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×