Skipulag akademískra deilda Háskólans í Reykjavík mun breytast frá og með 1. mars næstkomandi.
Í tilkynningu frá skólanum segir að helstu breytingarnar séu þær að þrjú fagsvið verði gerð að sérstökum deildum innan háskólans – íþróttafræði, sálfræði og iðn- og tæknifræði – og skilgreind verða tvö yfirsvið innan háskólans.
„Ragnhildur Helgadóttir, núverandi forseti lagadeildar hefur verið ráðin í stöðu sviðsforseta yfir viðskiptadeild, lagadeild, sálfræðideild og íþróttafræðideild. Gísli Hjálmtýsson, forseti tölvunarfræðideildar mun taka við stöðu sviðsforseta yfir verkfræðideild, tölvunarfræðideild og iðn- og tæknifræðideild. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir verður forseti sálfræðideildar, Hafrún Kristjánsdóttir verður forseti íþróttafræðideildar og Hera Grímsdóttir verður forseti iðn- og tæknifræðideildar. Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á skipulag náms innan háskólans.
Meginmarkmið breytinganna er efla enn frekar kennslu, rannsóknir og nýsköpun á þeim fjölbreyttu sviðum sem HR starfar og að gera háskólanum sem best kleift að bregðast við nýjum tækifærum og breyttum kröfum vegna yfirstandandi tæknibyltingar,“ segir í tilkynningunni.

