Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur farið fram á það við íslensk stjórnvöld að þau sjái til þess að MS noti ekki heitið „feta“ í framleiðslu sinni á osti. Osturinn sé ekki fetaostur nema framleiddur í Grikklandi, og þá eftir ákveðinni aðferð. RÚV greinir frá þessu.
Í apríl lagði Evrópuþingmaðurinn Emmanouil Fragkos fram fyrirspurn um framleiðslu MS á fetaosti. Benti hann á að fetaostur væri framleiddur úr mjólk áa og geita í Grikklandi, og þá með sérstökum aðferðum. Séu þessi skilyrði ekki uppfyllt teljist osturinn ekki vera feta. Þannig sé ekki hægt að kalla osta framleidda utan Grikklands fetaosta.
Í fyrirspurn sinni velti Fragkos því upp hvort notkun MS á „feta“ væri lögleg. Framkvæmdastjórn ESB svaraði því til að Ísland og Evrópusambandið hefðu gert samkomulag í maí 2016 um landfræðilega vernd matvara. Taldi framkvæmdastjórnin að notkun á „feta“ félli undir samkomulagið og MS því óheimilt að nota heitið.
Framkvæmdastjórnin hefur þegar óskað eftir því að íslensk stjórnvöld staðfesti að MS hafi notað „feta“-heitið á vörur sínar, og grípi til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun heitisins.