Útibúi Landsbankans í Mjódd hefur verið lokað tímabundið þar sem starfsfólk útibúsins er komið í sóttkví eftir að einn starfsmaður þess greindist með Covid-19.
Þetta kemur fram á heimasíðu Landsbankans. Þar segir að samkvæmt upplýsingum frá smitrakningarteymi almannavarna sé verið að meta hvort þörf sé á frekari viðbrögðum, það er hvort að hafa þurfi samband við viðskiptavini sem komu í útibúið síðastliðinn mánudag og þriðjudag.
„Eftir vinnulok á þriðjudag fékk starfsmaður útibúsins upplýsingar um að fjölskyldumeðlimur sem hann hafði umgengist um helgina væri kominn í sóttkví vegna Covid-19. Hann mætti ekki til vinnu í gær, miðvikudag, en fór í sýnatöku og seinnipart dags var staðfest að hann hafði smitast af Covid-19. Alls nær sóttkvíin til 13 starfsmanna bankans.
Landsbankinn mun hafa samband við viðskiptavini sem áttu pantaðan tíma í Mjódd til að bóka nýjan tíma hjá ráðgjafa í öðru útibúi.
Sjálfsafgreiðslutæki bankans í Mjódd eru áfram aðgengileg viðskiptavinum og leitast verður við að tryggja viðskiptavinum aðstoð við notkun þeirra á meðan útibúið er lokað. Við bendum einnig viðskiptavinum á að nýta sér appið og netbankann,“ segir í tilkynningunni.