Veðurfar í mánuðinum var ekki ósvipað því og er nú. Mun minni úrkoma en í venjulegu ári, sólin skein og gróður þurr. Þó ekki jafn þurr og nú en ekki hefur verið jafnþurrt í Reykjavík í ár fyrstu fjóra mánuði ársins í aldarfjórðung.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu áætlar að um 200 hektarar, rúmlega tveir ferkílómetrar, hafi brunnið í Heiðmörk á þriðjudaginn. Í apríl 2008 brann mun minna svæði eða tæplega átta hektarar af grónu landi, þar á meðal rúmlega sjö þúsund tré.
Ekkert hefur komið fram um eldsupptök í eldinum í Heiðmörk á þriðjudag. Heiðmörk er opin en bannað er að kveikja eld á svæðinu, hvort sem er í formi sígarettu eða í stærri mæli.
Óvissustig almannavarna er á Suðurlandi öllu, vestur á Snæfellsnes og austur undir Eyjafjöll. Lítil úrkoma er í kortunum og áhyggjur töluverðar hjá slökkviliðsstjórum og sumarhúsaeigendum á svæðunum.
Áhyggjur eru því töluverðar en sé horft til dómsins sem piltarnir þrír fengu fyrir minni sinubruna árið 2008 má telja ólíklegt að vægari dómur en þriggja mánaða fangelsi bíði þeirra sem staðnir verða að sinubruna. Hámarksrefsing í brotaflokknum er sex ára fangelsi.