Skoðun

Vinir mínir eru ekki skrímsli

Hans Jónsson skrifar

„Frændi er ágætur, bara svolítið leiðinlegur í glasi, þannig að ekki skilja frænku eftir eina með honum.“

Flest könnumst við að hafa heyrt einhvern tímann eitthvað á þessum nótum. Kannski án þess að vita hvað var átt við með „leiðinlegur.“

Kannski vorum við umrædd „frænka“ og okkur var sagt að fara ekki með honum neitt eða vera ein með honum. Af því hann getur verið ágengur eða erfiður, í glasi, sko, en hann er samt ágætur.

Þó við þekkjum kannski ekki alla söguna þá vitum við flest um einhvern sem að okkur þætti óþægilegt að vita að væri einn með einhverjum sem okkur þykir vænt um; með barninu okkar, með litlu systur, með einhverju yngra og óvarkárara en okkur sjálfum.

En við nefnum engin nöfn, og við segjum ekki hvernig hann er „leiðinlegur.“

Þau sem „lenda í honum“ vara hvert annað við og segja hvert öðru að hann sé hættulegur, ekki leiðinlegur, og það er vaninn.

Þau vara við að hann sé hættulegur, við fréttum það filtrerað, og berum áfram að hann sé leiðinlegur, svolítið ágengur, kannski jafnvel erfiður.

En frændi er ágætur samt, það fylgir alltaf sögunni, því að það er erfitt að horfast í augu við mennsku þeirra sem við viljum trúa að séu alltaf augljós skrímsli.

Vinir mínir eru nefnilega engin skrímsli.

Það getur ekki verið.

Ég myndi ekki vera vinur skrímslanna.

Þannig að enginn vina minna getur gert það sem bara skrímsli gera.

Og við hrökkvum í vörn.

Og hvað þá ef við höfum sjálf farið yfir mörkin einhvern tímann.

Bara einu sinni yfir mörkin og við stígum á bremsuna þegar við fréttum að manneskja sem við sjáum sem manneskju hafi gert eitthvað svipað því sem við höfum gert og að það hafi verið slæmt.

Það getur ekki hafa verið svo slæmt.

Það eru bara skrímsli sem gera eitthvað virkilega slæmt, og þetta er manneskja, ekki skrímsli.

Eins og ég, ég er manneskja, ekki skrímsli.

Það getur ekki verið að það hafi verið slæmt, því þá væri það sem ég gerði slæmt, og ég væri þá skrímsli.

Það er auðveldara og tilfinningalega ódýrara fyrir okkur að reiðast þeirri ókurteisi að flagga óhreina þvottinum sem við vitum öll að er til.

Að kalla eftir því að þau sem að hann var „leiðinlegur við“ þurfi ekki að sjá hann og hlusta á hann og vita að við hömpum frænda.

Það er svo óþægilegt.

Veröldin er svo mikið þægilegri þegar frændi er ágætur, bara svolítið leiðinlegur í glasi, ekkert vandamál, ekkert skrímsli, bara manneskja.

Það er erfiðara þegar við þurfum að horfast í augu við það að „skrímslin“ eru ekki augljós, þau eru öll manneskjur, og við gætum verið skrímsli líka.

Það er erfiðara að hætta meðvirkninni og feluleiknum en að viðhalda gömlum hefðum þöggunar og nauðgunarmenningar.

Svo við nefnum engin nöfn, reynum að passa upp á að frænka sé aldrei ein með frænda, og skömmum þau sem rugga bátnum með því að krefjast einhvers betra.

Sama hvað það kostar frænku þegar við sjáum ekki til.

Höfundur skipar fjórða sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×