Skoðun

Kæru foreldrar í Fossvogi

Ragnar Þór Pétursson skrifar

Kæru foreldrar í Fossvogi, við þurfum að tala saman. Við þurfum að ræða um viðbrögð sumra ykkar við því að skólastjórinn ykkar skuli bogna undan því álagi sem fylgir því að reka skólann í langvarandi veiru- og myglufaraldri.

Ég ætla ekki að reyna að lýsa vonbrigðum mínum með það að einhverjum ykkar hafi þótt við hæfi að fylgja þeim tíðindum eftir með blaðaumfjöllun um að skólinn hafi brugðist börnum í sjöunda bekk með því að panta ekki fyrir þau ferð í skólabúðir í tæka tíð.

Nú veit ég að börnum er fullkomlega eðlilegt að horfa á heiminn út frá tiltölulega litlum sjóndeildarhring eigin skynjunar og hugsunar. Mikið af því álagi sem þið foreldrar, kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk skólans hafið tekið á eigin herðar síðustu misseri hefur einmitt verið í þeim tilgangi að börnin eigi sem eðlilegast líf við þessar óeðlilegu aðstæður. Þess vegna er auðvitað sorglegt að þau missi af ferð í skólabúðir.

Það breytir þó ekki því að þið, sem fullorðið fólk og mikilvægir hlekkir skólasamfélagsins, eigið að vita betur. Að tala um að það sé þyngra en „tárum taki“ að börn missi af skólabúðum og að skólinn hafi brugðist í árferði sem hefur kostað nemendur, kennara og stjórnendur margar grundvallarforsendur eðlilegs náms og skapað starfsaðstæður og -umhverfi sem engan veginn uppfylla kröfur um aðbúnað – er óheppilegt svo ekki sé meira sagt.

Það verður stöðugt erfiðara að laða fólk að stjórnun skóla. Því er flókið að snúa við. Þar skiptir þó máli að það samfélag sem skólinn starfar í sé samfélag gagnkvæmrar virðingar, skilnings og stuðnings.

Kæru foreldrar í Fossvogi. Skólafólkið ykkar hefur unnið þrekvirki við að halda gangandi skóla barnanna ykkar við ofboðslega krefjandi aðstæður í alllangan tíma. Það þarf á stuðningi ykkar að halda. Umfram allt þurfa börnin ykkar að sjá ykkur ástunda víðsýni, samkennd og virðingu fyrir samferðafólki ykkar – því óháð veirum og myglugróum lærast sumar lexíur ekki annars staðar en heima.

Höfundur er formaður Kennarasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×