Skoðun

Hvað á að gera við smábörn?

Sæunn Kjartansdóttir skrifar

Þegar ég les „gleðifréttir” um væntanlega fjölgun leikskólaplássa fyrir ungbörn veit ég ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Mér er kunnugt um óbrúaða bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Ég veit líka að í sveitarstjórnum starfar vel meinandi fólk. Vandinn er úr sér gengin hugmyndafræði og vonlausar forsendur. Börnin eru of mörg og of þurfandi miðað við fjármagnið sem ætlað er í málaflokkinn, faglærðu starfsfólki heldur áfram að fækka og það fást heldur ekki nægilega margir ófaglærðir til starfa. Fyrirheit um fjölgun plássa kunna að hljóma vel en hvaða fyrirbæri er leikskóli án starfsfólks?

Við erum samdauna vandanum

Til að redda málum kom upp sú hugmynd að borga þreyttu og illa launuðu starfsfólki leikskólanna 75 þúsund kall fyrir að fá einhvern, já bara einhvern, til að vinna með sér. Í að minnsta kosti þrjá mánuði. Til allrar hamingju var hætt við þau áform en það eitt að þau skyldu verða meira en hugmynd á „viðrunarfundi“ hringir háværum viðvörunarbjöllum. Því miður er bjölluhljómurinn frá leikskólum orðinn svo kunnuglegur að hann er eins og hvert annað suð í eyrunum sem drukknar í neyðarópum Landspítalans. Þess vegna kippum við okkur ekki upp við króníska undirmönnun á leikskólum. Hún er löngu orðin varanleg. Við erum líka búin að sætta okkur við að leikskólar séu að langstærstum hluta mannaðir af starfsfólki með takmarkaða menntun, reynslu eða skilning á þörfum barna. Til að bæta gráu ofan á svart komu nýlega upp mál sem vöktu undarlega lítil viðbrögð þar sem starfsfólk leikskóla var grunað um ofbeldi gegn börnum. Ofbeldi á leikskólum þarf ekki að koma neinum á óvart og það hvarflar ekki að mér að þessi tilteknu mál séu einsdæmi. Þegar við setjum óburðugt og óánægt fólk í krefjandi aðstæður með vald yfir ungum börnum bjóðum við heim hættu á vanrækslu og ofbeldi. Þetta sýnir reynslan til dæmis frá Breiðuvík, Hjalteyri, Vöggustofu Reykjavíkurborgar, Kópavogshæli, Arnarholti, Silungapolli, Bjargi, Jaðri, Reykjahlíð, Heyrnleysingjaskólanum, Kumbaravogi, Landakotsskóla, Smáratúni, Torfastöðum, Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins. Þessi mál komu ekki fram í dagsljósið fyrr en mörgum árum eftir að ofbeldið átti sér stað, rétt eins og óteljandi mál metoo–bylgjunnar, en á árinu 2022 verðum við að hafa burði til að horfast í augu við hætturnar sem eru beint fyrir framan nefið á okkur – og bregðast við þeim.

Tímarnir hafa breyst

Núverandi leikskólakerfi var þróað með jafnrétti kynjanna og mikilvægi vinnumarkaðarins að leiðarljósi þegar þekking á þörfum ungbarna var mun takmarkaðri en hún er í dag. Aukin vitund foreldra um tengslaþörf barna hefur haft áhrif á viðhorf þeirra til foreldrahlutverksins og þeirra úrræða sem ungum börnum bjóðast. Þetta sást skýrt í umræðunni um lengingu fæðingarorlofsins. Þá hafa samtökin Fyrstu fimm ítrekað bent á að foreldrar vilji eiga meiri hlutdeild í lífi barna sinna en venja hefur verið til undanfarna áratugi. Það er ekki vegna þess að þeir haldi að umönnun smábarna sé kósý innivinna heldur vita þeir að fyrstu æviárin kemst enginn með tærnar þar sem foreldrar hafa hælana. Ef sveitarstjórnir ætla að móta ábyrga stefnu í málefnum ungra barna og svara kalli foreldra verða þær að kynna sér rannsóknir á mikilvægi fyrstu áranna, skaðlegum áhrifum streitu á ung börn og nauðsyn þess að þeir sem annast börn í fjarveru foreldranna hafi þekkingu og getu til að bregðast við margbreytilegum þörfum þeirra á viðeigandi hátt.

Það eru engir ódýrir kostir í boði

Á meðan við bíðum eftir því að fæðingarorlofið verði lengt í tvö ár þarf að virkja hugmyndaflugið og finna barn- og fjölskylduvænar lausnir. Slíkt verkefni er ekki á færi sveitarfélaganna einna heldur þarf hugarfarsbreytingu og samvinnu margra aðila. Við þurfum að leggja sérstaka alúð við foreldra sem líður illa eða standa höllum fæti. Vissulega kostar það samfélagið peninga og fyrirhöfn að breyta kerfinu og setja þarfir barna og traust tengsl við fullorðna framar í forgangsröðina en það er líka rándýrt að horfa ekki á heildarmyndina. Hagfræðingar hafa fyrir löngu sýnt fram á að þegar allt er talið skili þeir fjármunir mestum arði til samfélagsins sem varið er í að styrkja fjölskyldur ungra barna.

Eftir sem áður þurfum við góða leikskóla fyrir börn eldri en tveggja ára, og einnig yngri börn ef foreldrar þurfa þess með, en við verðum að tryggja öryggi barnanna og gæði starfseminnar. Það gerum við með því að vanda val á fólkinu sem vinnur þar, halda álagi á því og börnunum innan marka og greiða laun í samræmi við ábyrgð.

Höfundur er sálgreinir.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×