Í lok maí á þessu ári var Kvika metin sem hæfur kaupandi að færsluhirðingasamningum fjármálafyrirtækjanna Valitor og Rapyd af Samkeppniseftirlitinu og nú hefur stofnunin formlega heimilað Kviku að kaupa samningana.
Með þessu hefur Kvika meðal annars skuldbundið sig til þess að færa þjónustukaup til annars þjónustuveitenda sem ekki er umsvifamikill færsluhirðir á Íslandi. Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu er það mikilvægur liður í að tryggja varanlegt samkeppnislegt sjálfstæði Kviku frá sameinuðu félagi. Færsluhirðingarþjónusta Kviku verður ekki rekin af dótturfélagi í eigu bankans nema að tilteknum skilyrðum fullnægðum.
Samkeppniseftirlitið hefur fyrir sitt leyti samþykkt samruna Rapyd og Valitors en Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur samrunann enn til skoðunar. Kaup Kviku eru því háð samþykki Seðlabankans.