Þetta eru niðurstöður rannsóknar fjölda vísindamanna sem birt var í tímaritinu Nature í gær. Skemmdirnar sem voru metnar ná allt til ársins 1986.

Brúnn trjásnákur á það til að valda miklum rafmagnstruflunum með því að skríða eftir rafmagnsleiðslum. Bandaríski herinn kom óvart með snákinn á eyjuna Gvam og þar hefur hann valdið miklum skaða og hefur náð að dreifa sér á fleiri eyjar í Kyrrahafinu. Snákurinn hefur ansi oft slegið rafmagnið út hjá hernum.
Yfir tvær milljónir brúnna trjásnáka eru taldir búa á eyjunni en hún er 549 ferkílómetrar að stærð, svipað stór og Borgundarhólmur í Eystrasaltinu.
Amerískum bolafroskum hefur fjölgað gífurlega í Evrópu síðustu ár en froskarnir eru sagðir borða nánast hvað sem er. Þannig valda þeir miklum skemmdum í vistkerfi landa.
Í Þýskalandi hafa verið settar upp girðingar við nokkrar tjarnir svo froskarnir komist ekki úr þeim og dreifi sér um nærliggjandi svæði.
Í skýrslunni er einnig rætt um aðra froskategund, coqui-froskinn sem talinn er hafa keyrt niður fasteignaverð í hverfum sem hann sest að í vegna háværs pörunarkalls.
