Áhrifa snjóflóðana sem féllu í Neskaupstað gætir enn og hafa Almannavarnir opnað þjónustumiðstöð í Egilsbúð. Í þjónustumiðstöðinni má finna alls kyns gagnlegar upplýsingar og aðstoð við praktísk mál eins og tryggingar, hvar fólk eigi að búa til bráðabirgða og hvert skuli snúa sér til þess að sækja bætur. þar er einnig að finna sálfélagslegan stuðning sem Rauði Krossinn stendur fyrir.
Daði Benediktsson, formaður björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað segir að fólk muni geta sótt þær upplýsingar sem það þurfi í þjónustumiðstöðina.
„Það er þjónustumiðstöð búin að opna og hún er í Egilsbúð sem er í félagsheimilinu okkar. Hún opnaði í dag og er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem hafa orðið fyrir áföllum í þessu öllu saman. Þannig að fólk getur leitað þangað og sérfræðingar leiðbeina fólki.“
Þá hefur Rótaríklúbburinn á svæðinu sett af stað söfnun fyrir þá sem urðu fyrir tjóni enda munu náttúruhamfaratryggingar ekki bæta að fullu tjón sem fólk varð fyrir. Eigin áhætta fólks sé um 600.000 krónur sé innbúið skemmt líka og svo tvö prósent af heildartjóni.
„Það er ekki á það bætandi að þurfa að hafa áhyggjur af þessum málum ofan í allt hitt. Samfélagið og yfirvöld eiga að tryggja að borgarar landsins séu ekki að lenda í svona veseni, ef maður getur orðað það svo.“