Skoðun

Banka­ræningjar og stjórn­endur fyrir­tækja

Gunnar Ingi Björnsson skrifar

Árið 1987 söng Pálmi Gunnarsson um hversu hratt tíminn liði á gervihnattaöld. 36 árum síðar hefur hraðinn aukist og gervihnöttunum bara fjölgað. Magnús Eiríksson hitti nefnilega naglann á höfuðið þegar hann samdi þennan eftirminnilega texta.

Núna má segja að tölvuöld hafi tekið við af gervihnattaöld. Fyrirtæki keppast við að koma gögnunum sínum í skýið og bjóða upp á stafrænar lausnir sem aldrei fyrr. Internetið tengir saman ólík kerfi, tæki og starfsstöðvar og gerir starfsmönnum kleift að sinna störfum sínum heiman frá í fjarvinnu.

Þróun samtengdra tölvukerfa og lausna á netinu hefur sannarlega breytt landslagi í rekstri fyrirtækja. Sem dæmi má nefna fækkun bankaútibúa, en á síðustu árum hefur fjöldi bankaútibúa fækkað mjög. Peningaseðlum í þeim útibúum sem eftir eru hefur einnig fækkað. Það er því ekki laust við að maður hugsi til þeirra sem atvinnu höfðu af því að ræna fjármunum úr slíkum útibúum – bankaræningja. Sitja þeir bara aðgerðarlausir heima hjá sér núna?

Það væri án efa gott ef svo væri en því miður er það ekki raunin. Slíkir aðilar munu alltaf elta tækifærin og í dag liggja peningarnir í netglæpum.

  • Meðalkostnaður fyrirtækja á heimsvísu af netárás, eða tölvuglæp, árið 2022 var 4,35M USD (600 milljónir króna).
  • Dýrustu tölvuglæpir voru framdir gegn fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum þar sem kostnaður nam að meðaltali 10M USD (1,4 milljarðar króna).
  • Í öðru og þriðja sæti var svo fjármálageirinn og tæknigeirinn þar sem meðalkostnaður af tölvuglæp var rúmar 5M USD (700 milljónir króna).
  • Í heild er áætlað tap íslenskra fyrirtækja á ári núna áætlað 10 milljarðar króna.

https://www.ibm.com/reports/data-breach

https://www.itu.int/hub/2021/06/iceland-prepares-for-next-generation-cybersecurity/

Áhugavert er að skoða hvernig kostnaður af tölvuglæpum getur dreifst á ólíka þætti. Það er nefnilega ekki þannig að kostnaður sé fyrst og fremst það sem greitt er til glæpamanna. Þvert á móti er afleiddur kostnaður eins og tap á tekjum vegna röskunar á viðskiptum, vinnutap starfsmanna, kostnaður við að koma kerfum aftur í gang, það sem telur hæst.

En hvað hefur þetta með stjórnendur að gera? Jú, það er nefnilega orðið nauðsynlegt fyrir stjórnendur fyrirtækja að hafa mun betri skilning á hættunni sem stafar af tölvuárásum. Í gamla daga var það í raun „einkamál tölvudeildarinnar“ hvernig kerfi voru uppsett og hvaða lausnir voru valdar. En í dag er það ekki svo gott.

Stjórnendur fyrirtækja hafa lagalega skyldu til að tryggja öryggi þeirra kerfa og gagna sem þeir eru í forsvari fyrir. Lengi hefur lagalegt umhverfi á Íslandi verið á eftir nágrannalöndum okkar þegar kemur að ábyrgð stjórnenda fyrirtækja á þessum málum. Þetta hefur þó verið að breytast á undanförnum árum og ljóst að bæði munu lagalegar kröfur aukast ásamt faglegum kröfum um uppsetningu og varnir.

Miðvikudaginn 17. maí næstkomandi verður haldin í Smárabíó ráðstefnan „Tölvuárásir á íslensk tölvukerfi. Hvert er umfang þeirra og hvað er hægt að gera árið 2023?“. Á þessari ráðstefnu verður reynt að dýpka umræðuna um netöryggi og netöryggislausnir.

Að ráðstefnunni standa Exclusive Networks í samstarfi við Fortinet, SentinelOne, Thales og Infoblox en allt eru þetta leiðandi fyrirtæki á sínu sviði þegar kemur til netöryggis og öryggislausna en aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis fyrir skráða þátttakendur.

Á ráðstefnunni munu sérfræðingar fara yfir m.a.:

  • Hvert er umfang tölvuárasa á íslensk tölvu- og upplýsingakerfi?
  • Er munur á eðli tölvuáraása hérlendis? og erlendis?
  • Hvernig sjá framleiðendur öryggislausna þróunina verða árið 2023 og ekki síður til framtíðar?

Skráning er öllum opin en skráning fer fram á netinu.

Það er óhætt að hvetja stjórnendur fyrirtækja að nýta sér þetta tækifæri til að dýpka skilning sinn á þeim hættum sem rekstri fyrirtækja stafar af netárásum og tölvuglæpum. Því eins og Pálmi sagði, tíminn líður hratt á gervihnattaöld og bankaræningjarnir eru búnir að finna sér ný skotmörk.

Höfundur er Channel Manager hjá Exclusive Networks.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×