Skoðun

Mikil­vægi fé­lags­legs stuðnings fyrir ung­menni

Ágúst Arnar Þráinsson skrifar

Félagslegur stuðningur barna og unglinga er gífurlega mikilvægur í uppvexti barnanna okkar. Við munum það nú flest hvaða fólk það var í okkar nærsamfélagi og það hvernig það lét þér líða. Yfirleitt voru það vinir og skólafélagar en stundum félagsmiðstöðvastarfsmaðurinn, konan í mötuneytinu eða fólkið í sjoppunni. En allt þetta fólk hefur áhrif og hefur meðvitað og ómeðvitað haft áhrif á þitt líf. Í dag eru börn sem einangrast af einni eða annarri ástæðu. Þessi börn sem eru að einangrast eru mörg hver með færri tækifæri vegna til dæmis samskipta- eða aðgengisvandamála. Börn og unglingar læra mikið af vinum og jafningjum sem þau umgangast mest á hverjum tíma. Meðal jafningja kemur öryggið þar sem við getum spurt heimskulegu spurninganna sem maður spyr ekki í skólanum eða heima við matarborðið.

Í samfélaginu okkar eru börn og unglingar mis virk í félagslífi og það eru margar ástæður þar að baki. En fötluð börn og unglingar eru oft sá hópur sem býr við skert tækifæri til tómstundaiðkunar. Þeirra félagsstarf er jafn mikilvægt og annara en samt hefur okkur sem samfélag illa tekist að ná að styðja þessi börn. Þau börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu hafa flest tækifæri en þau eru háð ýmsum breytum. Til dæmis hvort það fái stuðning í félagsstarfinu.

Það að bjóða uppá félagslegan stuðning fyrir fötluð börn og unglinga er ekki hugsað til að foreldrar þessara barna komist í vinnu eða að tryggja að þau séu ekki heima eftirlitslaus. Heldur einmitt til að tryggja að fötluð börn og ungmenni kynnist bestu útgáfunni af sjálfri sér og þeim sé tryggt að þau geti gert það í öruggu umhverfi. Það gerum við í gegnum samskipti, leiki og samvinnu.

Fötluð börn og unglingar eiga að fá tækifæri til að eflast og styrkjast í frítímanum sínum og því er mikilvægt að þau fái þann félagslega stuðning sem þau þurfa til að verða hluti af samfélaginu. Við viljum öll að börnin okkar blómstri í leik og starfi, að þau verði besta útgáfan af sjálfum sér og séu hamingjusöm.

Höfundur er tómstunda- og félagsmálafræðingur, og starfar sem forstöðumaður í Garðahrauni sem er sértæk frístund.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×