Þannig hljóðar stutt og laggott svar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um það hvort ráðherra hyggist gefa út leyfi til veiða á langreyðum á árinu 2024.
Leyfið sem Hvalur hf. hefur til veiða rennur út í árslok og ráðherra hefur áður sagt að óvíst sé hvort það verði endurnýjað. Frumvarp um bann við hvalveiðum hefur verið lagt fram á Alþingi en Kristján Loftsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hvals, hefur ekki gefið annað til kynna en að til standi að halda veiðum áfram.
Í skýrslu sem forsvarsmenn Hvals skiluðu inn til Matvælastofnunar og Fiskistofu í byrjun nóvember sagði að stöðvun veiðanna í tvígang hefði valdið stórfelldu fjárhagslegu tjóni og að fyrirtækið myndi leita réttar síns.
Þá sagði að megináskorunin sem fyrirtækið stæði frammi fyrir „tengist fyrst og síðast því pólitíska ölduróti sem hefur verið um hvalveiðar og að teknar séu meiriháttar ákvarðanir um starfsemi félagsins án þess að lagabókstafnum, þ. á m. stjórnarskrárvörðum réttindum félagsins, sé sérstakur gaumur gefinn“.