Einn af talsmönnum úkraínska hersins sagði að Rússar hefðu gert stórt áhlaup að þorpinu og hermennirnir hafi hörfað til nýrra varnarlína vestur af þorpinu, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Úkraínumenn eiga við mikinn skort á skotfærum fyrir stórskotalið að etja og hefur það gert varnir þeirra mun erfiðari. Að miklu leyti má rekja þennan skort til pólitískra deila í Bandaríkjunum, þar sem Repúblikanar í fulltrúadeild þingsins hafa staðið í vegi frekari hernaðaraðstoðar um mánaðaskeið.
Rússar hafa aftur á móti aukið framleiðslu á hergögnum verulega á undanförnum tveimur árum og hafa þar að auki fengið stórar vopnasendingar frá Íran og Norður-Kóreu, sem hefur gert rússneskum hermönnum kleift að ná miklum yfirburðum þegar kemur að stórskotaliði.
Rússneskir fjölmiðlar segja rússneska hermenn hafa sótt um tíu kílómetra fram á svæðinu og að mikilvæg birgðaleið Úkraínumanna hafi legið í gegnum Lastochkyne.
Þá er útlit fyrir að fyrsta Abrams skriðdrekanum, sem Bandaríkjamenn sendu til Úkraínu í fyrra, hafi verið grandað. Það mun hafa verið gert nærri Avdívka á dögunum.
First US-supplied M1A1 Abrams MBT in Ukrainian service seen damaged/destroyed. Blowout panels can be seen deployed pic.twitter.com/ej72loRhMo
— OSINTtechnical (@Osinttechnical) February 26, 2024
Úkraínumenn fengu 31 skriðdreka frá Bandaríkjunum í fyrra en þeir hafa sést á víglínunni í austurhluta landsins á undanförnum vikum. Þetta er í fyrsta sinn sem myndefni af skriðdreka sem virðist hafa verið grandað sést á samfélagsmiðlum eystra.
Auk Abrams skriðdreka hafa Úkraínumenn einnig fengið Challenger 2 skriðdreka frá Bretlandi og Leopard skriðdreka frá Þýskalandi og öðrum ríkjum sem nota slíka skriðdreka. Fyrsta Challenger skriðdrekanum var grandað í september í fyrra.
Sjá einnig: Enginn endir í sjónmáli
Rústan Úmerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, kvartaði yfir því í gær að helmingur þeirrar hernaðaraðstoðar sem Úkraínumönnum hefði verið lofað bærist þeim seinna en lofað var og það gerði forsvarsmönnum hersins erfitt með skipulagningu. Úmerov sagði það hafa kostað líf hermanna.
Fregnir hafa einnig borist af því að Rússum hafi einnig tekist að granda fyrsta Archer-stórskotaliðskerfinu sem Úkraínumenn hafa fengið frá Svíum. Það eru fallbyssur sem ganga fyrir eigin afli og eru hannaðar til að hleypa af nokkrum skotum á skömmum tíma og hörfa svo aftur, áður en hægt er að svara skothríðinni.
Svo virðist sem Rússar hafi grandað vopnakerfinu með Lancet sjálfsprengidróna, ef marka má myndband sem Rússar birtu á netinu í dag.