Um yfirborðssprungu er að ræða og segir sérfræðingur Veðurstofunnar að ekkert bendi til þess að kvika flæði undir sprungunni þó að mikill hiti sé á svæðinu. Sprungan teygir sig frá Hagafelli, norðan við Grindavík og suður undir varnargarðinn og endar norðan við Hópshverfið í Grindavík og er sprungan því nokkuð löng.
Engar vísbendingar um kviku undir sprungunni
Ef kvika tæki að flæða úr yfirborðssprungunni myndi það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir byggð í Grindavík. Sérfræðingur Veðurstofunnar tekur þó fram að það gæti tekið nokkra klukkutíma fyrir kviku að ná byggð á svæðinu ef kvika kæmi upp í suðurhluta sprungunnar og ítrekar að engar vísbendingar séu um að kvika flæði undir sprungunni.
„Það fer allt eftir því magni sem myndi koma upp og síðan er ekki mikill halli á þessu svæði,“ segir sérfræðingur Veðurstofunnar.
Veðurstofan fylgist nú grannt með sprungunni með hjálp vefmyndavéla og í samstarfi við viðbragðsaðila á svæðinu. „Þetta er klárlega hlutur sem þarf að fylgjast með og almannavarnir eru meðvituð um þetta.“