Skoðun

Sigrar vinnast – spár bregðast

Þorvaldur Örn Árnason skrifar

Nú hefur því ítrekað verið spáð að Vinstihreyfingin – grænt framboð muni falla út af þingi. Ef marka má kosningaspár er ekki víst að nein vinstrihreyfing verði á Alþingi Íslendinga næsta kjörtímabil. Ég hitti þessa dagana fólk sem segir að það sé ekki til neins að kjósa VG, atkvæðið fari þá til spillis.

Landsliðið í körfubolta vann frækinn sigur á Ítölum fyrir fáum dögum síðan – í útileik, eftir að hafa tapað fyrir þeim í heimaleik og Ítalir unnið alla sína leiki í riðlinum. Allir spáðu sigri Ítala – en það fór á annan veg. Landsliðsmenn hefðu getað látið þær spár slá sig út af laginu og gefist upp – en það gerðu þeir ekki. Öðru nær!

Nú ætla ég að spá því að VG fái fimm þingmenn! Sú spá gæti vel gengið eftir, því útkoma kosninga er oft í litlu samræmi við kosningaspár.Það má velta fyrir sér af hverju það þykir ekki fréttnæmt að hátt í 50% kjósenda er enn óákveðinn. Óskir rætast, og tími kraftaverkanna er ekki liðinn!

Vinstri græn eiga brýnt erindi á þing, hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við höfum til þessa staðið okkur afburða vel í báðum þeim hlutverkum. Steingrímur J. Sigfússon var árum saman ræðukóngur Alþingis meðan hreyfingin var í stjórnarandstöðu. Katrín Jakobsdóttir á Íslandsmet í því að leiða sundrað lið, sem reynt hafði árangurslaust að berja saman stjórn. Okkar kona myndaði ríkisstjórn og stýrði henni gegnum þykkt og þunnt vel á sjöunda ár. Þrír flokkar og tveir þeirra yst á hvorum kanti! Þrír öflugir ráðherrar komu áfram ótrúlega mörgum stefnumálum vinstrimanna, náttúruverndara og jafnréttissina – þrátt fyrir Íhaldið! Þrátt fyrir að vera á jaðri stjórnmálanna hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð verið sameinandi afl. Hefur haldið saman afar ólíkum stjórnmálaöflum og í stefnu sinni í aldarfjórðung tengt saman kjarnamálefni eins og jöfnuð, jafnrétti, umhverfis- og loftslagsvernd og friðarmál. Í sundrung og ófriðarblikum um heim allan nú er brýn þörf fyrir slíkt stjórnmálaafl – einmitt nú.

Kæru vinir vors og blóma! Gefumst ekki upp – látum ekki glepjast – kjósum rétt!

Höfundur er eftirlaunamaður, búsettur í Vogum. 




Skoðun

Sjá meira


×