Maddi­son tryggði langþráðan heima­sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marki fagnað.
Marki fagnað. EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Tottenham Hotspur vann Manchester United 1-0 í uppgjöri tveggja liða sem ætluðu sér mikið í upphafi tímabils en hafa lítið sem ekkert getað til þessa í ensku úrvalsdeildinni.

Bæði lið mættu vægast sagt vængbrotin til leiks og vantaði yfir tíu leikmenn í lið gestanna vegna meiðsla og veikinda. Á bekknum var Victor Lindelöf eini leikmaðurinn með einhverja reynslu í meistaraflokki. Hann var jafnframt eini leikmaðurinn á bekk gestanna sem hafði fyllt tvo tugi í aldri. 

Heimamenn voru einnig án fjölda leikmanna. Þar má nefna Radu Drăgușin, Cristian Romero, Micky van de Ven, Richarlison, Timo Werner og Dominic Solanke. 

Hvað leikinn varðar þá voru það gestirnir frá Manchester sem byrjuðu betur og fengu fyrstu færi leiksins. Sú góða byrjun taldi þó lítið þegar James Maddison var eini maðurinn með kveikt á perunni er André Onana varði skot Lucas Bergvall út í teig, ekki í fyrsta og ekki í síðasta skipti sem Onana gerir það. 

Maddison - sem var dauðafrír á milli Matthijs de Ligt og Patrick Dorgu - gat ekki annað en rennt boltanum í galopið markið.

Maddison fagnar.EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Gestirnir voru nálægt því að jafna skömmu síðar en því miður fyrir þá féll boltinn fyrir Alejandro Garnacho sem verður seint sakaður um að nýta færin vel. Hann þrumaði boltanum yfir og staðan enn 1-0. Þannig var hún í hálfleik eftir að heimamenn höfðu verið 70 prósent með boltann í fyrri hálfleik. 

Bæði lið fengu ágætis færi í síðari hálfleik. Garnacho átti fínt skot sem Guglielmo Vicario varði vel í marki heimamanna. Joshua Zirkzee átti þá skalla framhjá marki Vicario á meðan Dejan Kulusevski fékk tækifæri til að tvöfalda forystu heimamanna. 

Á endanum fór það svo að leiknum lauk með 1-0 sigri Tottenham sem átti sigurinn fyllilega skilið. Það var að sama skapi ljóst að Rúben Amorim treysti ekki ungum leikmönnum sínum en hann gerði aðeins eina skiptingu. Hinn 17 ára gamli framherji Chidozie Obi kom inn af bekknum í uppbótartíma. 

Sigurinn lyftir Tottenham upp í 12. sæti með 30 stig á meðan Man United er í 15. sæti með 29 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira