„Málfrelsið er takmörkum háð,“ sagði Thomas D. Homan, sem fer fyrir brottflutningi ólöglegra innflytjenda, á fundi í gær. Yfirvöld teldu manninn ógna þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Mahmoud Khalil, 30 ára, er með varanlegt dvalarleyfi í Bandaríkjunum, svokallað „grænt kort“, lauk mastersnámi frá Columbia í fyrra og er giftur bandarískum ríkisborgara. Hann hefur ekki verið ákærður en hefur hins vegar verið neitað um að ræða við lögmenn sína í einrúmi.

Khalil var tals- og samningamaður mótmælenda sem reistu tjaldbúðir á skólalóð Columbia í fyrra. Hann er sakaður um brot gegn innflytjendalöggjöfinni, á þeim forsendum að hafa skaðað utanríkishagsmuni Bandaríkjanna með gyðingaandúð.
Framganga stjórnvalda í málinu hefur verið harðlega gagnrýnd af mannréttindasamtökum og þá segir Jamie Raskin, þingmaður Demókrata, um að ræða afar hættulegt fordæmi, sem sé ætlað að hræða aðra til hlýðni.
Stephen Vladeck, prófessor við lagastofnun Georgetown University, segir að jafnvel þótt Khalil takist að komast undan því að verða vísað úr landi sé verið að senda þau skilaboð til allra innflytjenda að þeir eigi hættu á handtöku, varðhaldi og jafnvel brottflutningi ef þeir tjá sig gegn stjórnvöldum.