Skoðun

„Ís­land mun taka þátt í þvingunar­að­gerðum gegn Ísrael náist sam­staða fleiri ríkja“

Einar Ólafsson skrifar

23. maí síðastliðinn birtist á Rúv frétt með fyrirsögninni: „Ísland mun taka þátt í þvingunaraðgerðum gegn Ísrael náist samstaða fleiri ríkja.“

Í fréttinni er haft eftir utanríkisráðherra að Ísland ætli að taka þátt í þvingunaraðgerðum gegn Ísrael með fleiri ríkjum – verði ákveðið að beita þeim. Hún og forsætisráðherra hafi rætt alla möguleika til að bregðast við. „Já, við munum að sjálfsögðu skoða það að vera með öðrum ríkjum í samfloti. Við erum í dag með ESB, við tökum undir þvinganir sem ESB setur á til að mynda vegna landtökubyggðanna. Þetta eru að sjálfsögðu hlutir sem við munum ekki skoða, við munum taka þátt í þeim aðgerðum sem þurfa til þess að breyta ástandinu eins og það er núna.“

10. júní birtist á Rúv frétt undir fyrirsögninni: „Fimm ríki setja viðskiptaþvinganir á háttsetta ísraelska ráðherra.“ Þessi ríki voru Bretland, Ástralía, Kanada, Nýja-Sjáland og Noregur. Minnugur orða utanríkisráðherra tæpum þrem vikum fyrr hugsaði ég sem svo að nú hlyti Ísland að bætast í hópinn. Enn hef ég þó ekki frétt af því.

Þegar þetta er skrifað er að ljúka ráðstefnu í Bógota í Kólumbíu um sameiginlegar aðgerðir gegn Ísrael vegna þjóðarmorðsins á Gasa. 32 ríki taka þátt í þessari ráðstefnu, þar á meðal fimm Evrópuríki, Írland, Portúgal, Spánn, Slóvenía og Noregur. Hér hefði Ísland mátt vera með og spurning hvort við eigum kost á að slást í hópinn eftir á.

Utanríkisráðherra nefndi ESB sérstaklega í viðtalinu við Rúv í maí: „Við erum í dag með ESB, við tökum undir þvinganir sem ESB setur á til að mynda vegna landtökubyggðanna.“

Nú er það svo að ESB hefur látið ákaflega lítið til sín taka vegna þjóðarmorðins á Gasa. En rétt í þann mund sem ráðstefnunni lýkur í Bógota mun forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, mæta hingað til fundar með forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Samkvæmt tilkynningu stjórnarráðsins verður staða alþjóðamála, öryggis- og varnarmál, viðskiptamál, almannavarnir og loftslagsmál í brennidepli.

Ég vænti þess að ástandið á Gasa verði þar eitthvað til umræðu og íslensku ráðherrarnir noti tækifærið til að spyrja um hvort ESB hafi í hyggju að hefja einhverjar þvingunaraðgerðir gegn Ísrael og upplýsi þá að Íslandi mundi styðja þær og taka þátt í þeim.

Höfundur er ljóðskáld og fyrrverandi bókavörur.




Skoðun

Sjá meira


×