Innlent

Kostnaður við stjórn­sýslu borgarinnar mun hærri en landsmeðaltalið

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Róbert segir að í ljósi stærðar ætti Reykjavíkurborg að hafa mjög góðar forsendur til að ná fram skilvirkni og stærðarhagkvæmni í umýslu sinni. Kostnaður við stjórnsýslu sé hins vegar mun hærri í borginnien gengur og gerist.
Róbert segir að í ljósi stærðar ætti Reykjavíkurborg að hafa mjög góðar forsendur til að ná fram skilvirkni og stærðarhagkvæmni í umýslu sinni. Kostnaður við stjórnsýslu sé hins vegar mun hærri í borginnien gengur og gerist. Vísir

Kostnaður við stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er mun hærri en gengur og gerist í öðrum sveitarfélögum. Hann er 10 þúsund krónum hærri á hvern íbúa en landsmeðaltalið og 26 þúsund krónum hærri en á Akureyri. Stjórnsýslufræðingur segir áhugavert að stærsta stjórnsýslueining landsins skuli ekki ná að nýta stærðarhagkvæmni sína til að auka skilvirkni og hagræði.

„Reykjavíkurborg er fjölmennasta sveitarfélag landsins, og eitt það þéttbýlasta, og ætti sem slík að hafa mjög góðar forsendur til að ná fram skilvirkni og stærðarhagkvæmni í umsýslu sinni. Það er hins vegar ekki raunin.“

Þetta segir Róbert Ragnarsson, stjórnsýslufræðingur, fyrrverandi bæjarstjóri Grindavíkur, og fyrrverandi leiðtogi sveitarstjórnarráðgjafar KPMG.

„Ef borgin myndi ná landsmeðaltalinu, sem er hóflegt markmið, þá gæti hún sparað 500–1.000 milljónir króna á ári, sem hún gæti nýtt í aðra þjónustu en stjórnsýslu.“

„Einn milljarður jafngildir því til dæmis að bjóða upp á þjónustu fyrir 200 leikskólabörn.“

Stórar einingar geti misst fókus

Róbert segir að í ljósi stærðar ætti kostnaður Reykjavíkur að vera minni en landsmeðaltalið, og sennilega ætti Reykjavík að vera ódýrust.

„En eins og í öllu getur þetta verið flókið. Rannsóknir hafa sýnt að þegar einingar verða stórar, þá missa menn fókus. Þá verða til hlutverk sem ekki er þörf á, eitthvað verkefni sem var sett af stað einhvern tímann, sem er ekki þörf á lengur, það er samt haldið áfram með það.“

Kostnaður við stjórnsýslu á hvern íbúa hjá nokkrum sveitarfélögum síðustu þrjú ár, samkvæmt ársreikningum frá árbók sveitarfélaga.

„Svona kerfi á oft erfitt með að losa sig úr tímabundnum verkefnum, þannig kostnaður helst inni.“

Sex hundruð millistjórnendur hjá borginni

„Það eru rúmlega sex hundruð stöðugildi í stjórnsýslu borgarinnar. Það er fólk sem er ekki toppstjórnendur, og er ekki að vinna í beinum tengslum við íbúana. Þetta eru verkefnastjórar, millistjórnendur, hérna getur flækjustigið orðið mikið.“

Borgin velti um 200 milljörðum króna á ári, sem 23 borgarfulltrúum og ellefu þúsund starfsmönnum borgarinnar sé falið að ráðstafa með hagkvæmum hætti.

„Til að uppfylla hlutverk sitt þarf borgin m.a. að verja fjármunum í grunnþjónustu eins og leikskóla, í lífsgæði sem felast m.a. í frístundum og menningu og rekstur innviða.“

„Þegar litið er til umsýslu borgarinnar, stjórnsýslu, fjármálaumsýslu, stoðþjónustu og eftirlits, þá er myndin athyglisverð. Árið 2024 kostaði þessi umsýsla um 13 milljarða króna, eða um 94 þúsund krónur á hvern borgarbúa. Landsmeðaltal allra sveitarfélaga er hins vegar 84 þúsund krónur á mann.“

Hægt er að nálgast ársreikninga sveitarfélaganna á í Árbók sveitarfélaga á vef sambands íslenskra sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×