Handbolti

Hefur átt mikil­væg sam­töl við Snorra Stein

Aron Guðmundsson skrifar
Teitur Örn lyftir sér hér yfir vörn Argentínu á HM á síðasta ári. Hann er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst bæði stöðu skyttu sem og hornamanns.
Teitur Örn lyftir sér hér yfir vörn Argentínu á HM á síðasta ári. Hann er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst bæði stöðu skyttu sem og hornamanns. Vísir/Getty

Innan við tvær vikur eru til stefnu þar til Ís­land hefur leik á Evrópumóti karla í hand­bolta. Skyttan Teitur Örn Einars­son er klár í slaginn en í lands­liðs­hópnum er ætlast til þess að hann leysi stöðu horna­manns og er hann hvergi banginn þegar kemur að því.

Undir­búningur Strákanna okkar hefur gengið vel en miður skemmti­leg tíðindi þegar að Kristján Örn Kristjáns­son þurfti að draga sig úr lands­liðs­hópnum sökum meiðsla. Horna­maðurinn Bjarki Már Elís­son hefur verið að glíma við smávægi­leg meiðsli en hefur æft af fullum þunga undan­farna tvo daga.

Það vakti tölu­verða at­hygli þegar að EM hópurinn var opin­beraður að skyttan Teitur Örn Einars­son, leik­maður Gum­mers­bach, var settur þar inn sem hægri horna­maður. Stöðuna þekkir Teitur Örn vel eftir að hafa spilað hana af og til undir stjórn Guðjóns Vals hjá þýska liðinu Gum­mers­bach.

„Mér líður mjög vel í þessari stöðu þó svo að ég að upp­lagi skytta þá get ég leyst hornið líka,“ segir Teitur í sam­tali við íþrótta­deild. „Það er varnar­leikurinn minn sem við erum að spila svolítið inn á núna. Það er það sem ég á að koma með inn í þetta lið til að styrkja og breikka hópinn í janúar, spila bakkarann og koma með minn kraft og geta þá aðeins hvílt meira menn í þessari stöðu.“

Ítar­leg samtöl við lands­liðsþjálfarann Snorra Stein gera það að verkum að Teitur Örn veit sitt hlut­verk í þaula.

„Já og mér finnst það bara mjög gott og mikilvægt. Að maður viti sjálfur hvers er ætlast til af manni. Ég veit bara að þegar að ég mæti í leik þá er ég að fara gera þetta, undir­bý mig fyrir það. Þá er enginn vafi um neitt, ég er bara mættur, ætla að gera minn part í þessu liði og ef við gerum það allir erum við helvíti góðir.“

Teitur Örn er reynslumikill leikmaður sem spilar með Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar í bestu deild í heimi, þýsku úrvalsdeildinni.Vísir/Vilhelm

Þegar kemur að ís­lenska lands­liðinu sé maður til­búinn til að spila hvaða stöðu sem er.

„Það er svaka­legt stolt sem þessu fylgir, að fá að fara í þessa treyju og spila fyrir landið sitt. Mér persónu­lega finnst það einn af stærstu hlutunum sem maður getur áorkað sem hand­bolta­maður.“

Fara inn í hvern leik til að vinna hann

Ís­land hefur leik á EM á föstu­daginn í næstu viku gegn Ítalíu en að auki eru lands­lið Póllands og Ung­verja­lands í riðlinum og skiptir sköpum upp á sem besta mögu­leika fyrir fram­haldið á mótinu að enda í efsta sæti riðilsins að um­ferðunum þremur loknum.

„Stemning er mjög góð og æfingarnar góðar hingað til. Mér finnst þetta líta mjög vel út allt saman. Náttúru­lega bara gott að hitta strákana aftur og komast í lands­liðs­fílingin. Það myndast alltaf góð stemning, þetta er mjög góður hópur.

Það er alltaf sama klisjan. Við höfum mikla trú á sjálfum okkur, förum inn í hvern leik til þess að vinna hann. Það er líka hættu­legt að horfa of langt og lofa ein­hverjum gjörðum sem flækjast svo fyrir manni. Ég tel það mjög gott svar að segja að við séum að fara inn í hvern leik á þessu móti til að vinna hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×