Erlent

Var á ráð­stefnunni í Davos: „Fólk kannski andað að­eins léttar“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Ingibjörg Þórðardóttir, er fyrrverandi fréttastjóri hjá BBC og CNN en vinnur nú að málefnum hafsins.
Ingibjörg Þórðardóttir, er fyrrverandi fréttastjóri hjá BBC og CNN en vinnur nú að málefnum hafsins. AP/Gian Ehrenzeller/CNN

„Ég held að það sem að fólk hafi aðallega verið að ræða um eftir þessa ræðu er þessi ruglingur með Ísland og Grænland. Og hvort hann sé að meina Grænland þegar hann segir Ísland eða hvort að Ísland þurfi að hafa áhyggjur af því sem hann er að segja. Ég held að það sé ekki alveg á hreinu.“ 

Þetta segir Ingibjörg Þórðardóttir, fyrrverandi fréttastjóri hjá BBC og CNN, í samtali við fréttastofu en hún er stödd á Alþjóðaefnahagsráðstefnunni (World Economic Forum) í Davos í Sviss þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti fór mikinn í dag. 

Ingibjörg er á ráðstefnunni til að vinna að málefnum hafsins en það er einmitt kjarni og meginumfjöllunarefni ráðstefnunnar í ár. Hún segir viðveru Trump ekki hafa grafið undan þeirri vinnu þó að hann hafi vissulega fengið mikla athygli, eins og eðlilegt sé.

„Það var áhugavert fyrir okkur sem erum að vinna í ákveðnum málum eins og ég sem er að vinna í hafverndunarmálum, að þá tók maður ekkert eftir þessu strax. Ef maður var ekki inni í salnum, þá var enginn mikið að pæla í þessu sem hann hafði að segja. Síðan þegar það fóru að berast fréttir af því sem hann hafði sagt þá stoppaði fólk aðeins og fór að spá í hvað væri í gangi.“

Á ráðstefnunni, þar sem margir þjóðarleiðtogar heims eru staddir, hélt Trump langa ræðu og ræddi málefni Grænlands sem hafa tekið mikið pláss í umfjöllun síðustu daga. Hann sagði til að mynda að hann myndi ekki nýta hervald til að komast yfir Grænland.

Hann tilkynnti um helgina að hann myndi leggja tíu prósenta toll á átta þjóðir Atlantshafsbandslagsins sem hafa sent mannafla til Grænlands. Sá tollur mun hækka í 25 prósent þann fyrsta júní ef Bandaríkin verða ekki búin að innlima Grænland fyrir þann tíma.

Ingibjörg segir það hafa verið ákveðinn létti að heyra forsetann segjast ekki ætla nota hervald.

„Ég held að flestir séu mjög fegnir því að hann hafi sagt að það yrði ekki notaður hernaður á Grænlandi. Ég veit ekki hvort að spennustigið hafi beint minnkað. Kannski var fólk bara í afneitun með það að hann myndi nokkurn tímann gera það. Þegar það kom staðfesting á því þá gat fólk kannski andað aðeins léttar,“ segir hún og tekur fram að umræðan um Grænland hafi ekki borið mikið á góma á ráðstefnunni fyrr en að Trump mætti á svæðið.

Hún segir ruglinginn varðandi Ísland og Grænland hafa vakið mesta athygli gesta á ráðstefnunni sem hún var í kringum. Í ávarpi sínu nefndi Trump Ísland á nafn nokkru sinnum og virðist hafa ruglast á eyjunum tveimur.

„Þegar hann byrjar að tala um Ísland þá eru fyrstu viðbrögð hjá mér að hann sé að ruglast á löndum. Síðan hélt hann áfram að segja það. Ég held það hafi verið fjórum eða fimm sinnum sem hann talaði um Ísland. Ég tók þessu ekkert mjög alvarlega. Ég er á þeirri skoðun að hann sé að rugla og ætli ekkert að falast eftir Íslandi. Maður getur aldrei ekki tekið mark á Trump. Ég lærði það nú í fjölmiðlunum að maður verður alltaf að hafa varann á þegar hann er að tala. Ég reikna með að það verði gerð einhvers konar leiðrétting á þessu. Ég vonast til þess að ríkisstjórn Bandaríkjanna komi með leiðréttingu á þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×