Skoðun

Reynsla og létt­leiki – Aðal­steinn fyrir Reykja­vík

Dóra Sif Tynes skrifar

Upptakturinn að sveitarstjórnarkosningum í vor er hafinn og flokkarnir í óða önn við að manna sína lista, hvort heldur í gegnum prófkjör, flokksval eða uppstillingu. Viðreisn í Reykjavík stendur frammi fyrir vali á oddvita lista næstu helgi. Svokallað leiðtogaprófkjör. Hvaða eiginleika þarf leiðtogi að hafa? Hann þarf að búa yfir trúverðugri reynslu af rekstri og stjórnun, enda er þetta kandídat Viðreisnar í borgarstjórastólinn. Borgarstjóri er jú í grunninn framkvæmdarstjóri gríðarlega umfangsmikils rekstrar. Leiðtoginn þarf líka að vera góður í að miðla málum og ná samkomulagi við aðra flokka til að tryggja aðild Viðreisnar að borgarstjórn. Að ná fram góðum málefnasamningi sem jafnframt tryggir stöðugleika við stjórn borgarinnar. Það sem skiptir þó ekki síður máli er að leiðtoginn þarf að hafa skýra sýn á framtíðina og þau verkefni sem brýnt er að ráðast í til að gera góða borg betri.

Aðalsteinn Leifsson er manneskja sem sameinar alla þessa kosti. Hann býr yfir mikilli reynslu af erfiðum umbreytingarverkefnum þar sem taka þurfti til í rekstri fyrirtækja og skipulagi stofnanna, en ekki síður að byggja upp traust á meðal almennings. Endurreisn Orkuveitu Reykjavíkur og Fjármálaeftirlitsins eftir hrun eru nærtæk dæmi. Aðalsteinn er einnig sá sem leggur áherslu á að traust í samskiptum skili bestum árangri enda er góður samningur sá sem allir geta vel við unað. En það sem einkennir Aðalstein þó mest er að hann hefur ástríðu fyrir því að gera samfélagið gott, að leita lausna til að gera góða borg betri og nálgast ný verkefni með opnum huga án allra kreddna. Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar séð til Aðalsteins sem stjórnanda í erfiðum verkefnum og hann sameinar þá eiginleika að vera ákveðinn og einbeittur og á sama tíma að láta fólk í kringum sig blómstra.

Svo er hann líka hrikalega næs og skemmtilegur maður og á þrífættan hund. Er hægt að biðja um meira?

Höfundur er lögmaður og fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar. 




Skoðun

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×