Skoðun

Svavar Gestsson: Eins og Kristján og Vigdís

Svavar Gestsson skrifar
Ef forseti Íslands á að vera til sem embætti þá þarf að vera sátt um embættið sem sameiningartákn. Forseti Íslands þarf að haga orðum sínum með hliðsjón af þessu mikilvæga hlutverki. Hann gætir þess að erlendir sendimenn skilji orð hans ekki svo að Rússland eigi að fá Keflavíkurflugvöll. Hann gætir þess að haga orðum sínum ekki svo að hann telji að Íslendingar séu gáfaðri og hæfari en allir aðrir sem fjármálamenn. Það gæti eins og kunnugt er misskilist. Hann gætir þess að haga orðum sínum ekki svo að heimurinn telji að Kötlugos sé yfirvofandi og að landið sé þess vegna að lokast. Hann gætir þess að haga orðum sínum ekki svo að ritstjóri víðlesnasta blaðs landsins telji hann stökkva á næsta hljóðnema einkum ef hann er merktur erlendri fréttastofu. Hann gætir þess að haga orðum sínum ekki þannig að hann sé skilinn svo að hann hafni rannsóknarnefndarskýrslunni. Hann gætir sín að haga orðum sínum ekki þannig að Kaupþing muni ekki gera upp Edge-reikningana í Þýskalandi.

Nú kann Ólafur Ragnar vafalaust svör við þessu öllu:

  • að hann hafi aldrei sagt að Rússar eigi að fá Keflavíkurflugvöll.
  • að hann hafi aldrei sagt að Íslendingar væru betri fjármálamenn en aðrir.
  • að hann hafi aldrei sagt að það væri alveg að koma Kötlugos.
  • að hann hafi aldrei sagt að Kaupþing myndi ekki gera upp Edge-reikningana.
  • að hann stökkvi aldrei á næsta hljóðnema merktan alþjóðlegri fréttastofu
  • að það sé misskilningur að hann hafi gagnrýnt skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
En það breytir ekki því að forsetaembættið hefur breyst; margir myndu telja það hafa skaðast. Einhverjir eru sjálfsagt ánægðir.

Í framhaldi af umræðum um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur verið bent á nauðsyn þess að endurskoða rammann um forsetaembættið: Það eigi að setja siðareglur um embættið, að það eigi að setja lög um embættið og að það eigi að endurskoða stjórnarskrárákvæðin um embættið. Það hefur jafnvel heyrst oftar en áður að embættið eigi að leggja niður; það sé þarflaust tildurembætti. Þá benda aðrir á að það þurfi að vera hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur. En það er mál sem Alþingi á að ákveða og það á þá að breyta stjórnarskránni þannig að minnihluti Alþingis - stór minnihluti - geti kallað fram þjóðaratkvæði.

Allt þetta og fleira kemur upp í hugann þessa dagana. Aðalatriðið að þjóðin vill að forsetaembættið sé sameiningartákn. Eins og í tíð Kristjáns og Vigdísar.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×